Erlent

Finnskir Jafnaðar­menn velja for­sætis­ráð­herra­efni í dag

Atli Ísleifsson skrifar
Líklegast þykir að Sanna Marin eða Antti Lindtman verði næsti forsætisráðherra Finnlands.
Líklegast þykir að Sanna Marin eða Antti Lindtman verði næsti forsætisráðherra Finnlands. Getty/EPA
Miðstjórn finnskra Jafnaðarmanna mun ákveða síðar í dag hver verður forsætisráðherraefni flokksins og hverjir verða ráðherra í nýrri stjórn. Stjórnarmyndunarviðræður halda áfram í dag.Antti Rinne, formaður Jafnaðarmannaflokksins, baðst lausnar sem forsætisráðherra síðastliðinn þriðjudag eftir að Miðflokkurinn, sem á sæti í ríkisstjórn hans, sagðist ekki treysta honum lengur til að leiða stjórn.Fulltrúar flokkanna fimm sem starfað hafa saman í ríkisstjórn vinna nú að myndun nýrrar stjórnar, væntanlega þá undir forystu þess forsætisráðherraefnis sem miðstjórn Jafnaðarmannaflokksins kemur sér saman um í kvöld.Stendur valið milli hinnar 33 ára Sanna Marin, sem hefur gegnt embætti ráðherra samgöngu- og fjarskiptamála í stjórn Rinne, og þingflokksformannsins Antti Lindtman sem er 37 ára. Segja fréttaskýrendur að mjótt kunni að verða á munum.Miðstjórn Jafnaðarmannaflokksins kemur saman klukkan 15:30 að íslenskum tíma. Verður fyrst farið yfir þá pólitísku stöðu sem upp er komin. Munu svo Marin og Lindtman halda sínar framboðsræður og verða svo atkvæði greidd. Er búist við að fundurinn kunni að standa langt fram á kvöld.Rinne leiðir stjórnarmyndunarviðræðurnar fyrir hönd Jafnaðarmanna, en viðræðurnar héldu áfram í morgun og standa yfir í dag. Þingkosningar fóru fram í Finnlandi í vor og myndaði Jafnaðarmannaflokkurinn þá stjórn með Græningjum, Miðflokknum, Vinstra bandalaginu og Sænska þjóðarflokknum. Stefnt að því að ný stjórn þessara flokka geti tekið við völdum næsta þriðjudag.

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.