Erlent

Fótboltamaður grunaður um að vera höfuðpaur eiturlyfjahrings

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Contreras í leik Aris gegn AEK árið 2009.
Contreras í leik Aris gegn AEK árið 2009. Nordicphotos/Getty

Sergio Contreas, fyrrverandi atvinnumaður í fótbolta, var handtekinn á þriðjudag, grunaður um að vera höfuðpaur eiturlyfjahrings sem starfar á suðurhluta Spánar. Contreras var á ferli sínum þekktur sem Koke, en þó ekki hinn þekkti landsliðsmaður Koke sem spilar með Atletico Madrid.

Handtakan fór fram í bænum Este­pona, sem er mitt á milli Gíbraltar­höfða og hins vinsæla ferða­manna­staðar Marbella. Á sama tíma fóru fram lögregluaðgerðir víðs vegar um suðurhluta Spánar, svo sem í borgunum Sevilla, Malaga og Granada. Í aðgerðunum voru alls 20 manns handteknir, hald lagt á eitt tonn af kannabisefnum og 700 þúsund evrur í peningum, eða rúmlega 95 milljónir króna.

Samkvæmt lögreglunni er Contreras grunaður um að vera leiðtogi hópsins og að skipuleggja starfsemina. Er honum nú haldið í gæsluvarðhaldi í borginni Malaga.

Contreras er 36 ára gamall og lék fótbolta frá 2001 til 2016 sem framherji. Hann hóf ferilinn í heimabæ sínum Malaga en fór ungur til franska liðsins Marseille þar sem hann skoraði 6 mörk í 43 leikjum.

Eftir stutt lán til Sporting Lissabon spilaði Contreras í fimm ár með gríska liðinu Aris. Eftir það varð hann hálfgerður flækingur og spilaði meðal annars með Houston Dynamo í Bandaríkjunum, FC Baku í Aserbaídjsan, Blooming í Bólivíu og NorthEast United á Indlandi.
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.