Erlent

Hvorugur stærstu flokkana eigi skilinn kosninga­sigur

Andri Eysteinsson skrifar
Blair var forsætisráðherra Bretlands 1997-2007.
Blair var forsætisráðherra Bretlands 1997-2007. Getty/Horacio Villalobos
„Við erum í algjöru rugli,“ sagði Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands um stöðu ríkisins í aðdraganda þingkosninga sem munu fara fram 12. desember næstkomandi. Boðað var til þingkosninga þremur árum á undan áætlun en rekja má þá ákvörðun til þess að þingheimi hefur ekki tekist að koma sér saman um lausn í Brexit-málum.

Blair sem sat við stjórnvölinn í Downingstræti 10 frá 1997 til 2007 fyrir Verkamannaflokkinn sagði einnig að hvorugur stóru flokkanna, Verkamannaflokkurinn annars vegar og Íhaldsflokkurinn hins vegar, ættu skilinn kosningasigur í næsta mánuði. Forsætisráðherrann fyrrverandi ræddi komandi kosningar á ráðstefnu Reuters í London.

„Sannleikurinn er sá að almenningur er alls ekki sannfærður um að flokkarnir eigi skilinn kosningasigur“ sagði Blair sem telur líklegt að Íhaldsflokkurinn muni að endingu halda meirihluta sínum.

Blair ræddi einnig stöðu Verkamannaflokksins undir stjórn Jeremy Corbyn. Sagði hann að undir stjórn Marxísk-Leníníska hluta flokksins lofi Verkamannaflokkurinn byltingu. „Vandamálið með byltingar er ekki hvernig þær hefjast, heldur hvernig þær enda,“ sagði Blair. Hann sagðist þá óviss um að Verkamannaflokkurinn muni aftur færast nær miðju eftir að hafa færst vel til vinstri undir stjórn Corbyn.

Blair sagðist einnig ekki hafa trú á því að Brexit-áætlun Boris Johnson og Íhaldsflokksins muni standast en Johnson hefur lofað útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fyrir 31. janúar. Enn sé möguleiki á að Bretland yfirgefi ESB án samnings. „Það eru engar líkur á að viðræðum ljúki fyrir frestinn,“ sagði Blair.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×