Tveir fengu rautt eftir dramatískt jöfnunarmark

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jöfnunarmarkið þýddi mikið fyrir leikmenn Club Brugge
Jöfnunarmarkið þýddi mikið fyrir leikmenn Club Brugge vísir/getty
Það gekk mikið á undir lok leiks Club Brugge og Galatasaray í A-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Tveir leikmenn voru sendir af velli í fagnaðarlátum í leikslok.

Adem Büyük kom Galatasaray yfir snemma leiks og stefndi í sigur heimamanna í Tyrklandi. En Krepin Diatta jafnaði metin fyrir Club Brugge í uppbótartíma.

Hann fagnaði marki sínu með því að fara úr treyjunni, sem er bannað, og fékk hann því sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Liðsfélagi hans, Clinton Mata, missti sig líka aðeins í fagnaðarlátunum og sparkaði í hornfána með þeim afleiðingum að hann brotnaði. Fyrir það fékk hann einnig sitt annað spjald. Belgarnir luku því leik með 9 menn á vellinum.

Það var kannski ekki alveg tilefni til þessara ógurlegu fagnaðarláta, því þessi úrslit þýða að málin eru komin á hreint í A-riðli, PSG og Real Madrid fara áfram en Club Brugge og Galatasaray sitja eftir.

Í D-riðli hafði Bayer Leverkusen betur gegn Lokmotiv Moskvu í Rússlandi. Fyrra mark Leverkusen var sjálfsmark Rússanna og það seinna gerði Sven Bender í seinni hálfleik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira