Innlent

Tveir af þremur dæmdir fyrir að nauðga unglingsstúlku

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Brotin áttu sér stað í Reykjavík í febrúar 2017.
Brotin áttu sér stað í Reykjavík í febrúar 2017. Vísir/Vilhelm
Tveir karlmenn á fertugsaldri hafa verið dæmdir í þriggja ára fangelsi fyrir að nauðga stúlku á sautjánda ári í húsnæði í Reykjavík í febrúar 2017. Þá þurfa þeir hvor fyrir sig að greiða stúlkunni 1,3 milljónir króna í miskabætur. Þriðji karlmaðurinn, sem er nær stúlkunni í aldri, var sýknaður í málinu.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudaginn en hefur enn sem komið er ekki verið birtur á vef dómstólsins. Mennirnir þrír voru ákærðir fyrir að hafa brotið á stúlkunni hver fyrir sig í herbergi á heimili í Reykjavík með því að hafa „haft samfarir og önnur kynferðismök“ við stúlkuna án hennar samþykkis.

Beittu þeir ólögmætri nauðung með því að notfæra sér ölvunarástand stúlkunnar og yfirburðarstöðu þar sem stúlkan var stödd með ókunnugum mönnum fjarri öðrum.

Í ákærunni yfir karlmönnunum sem voru dæmdir kom fram að þeir hefðu nýtt sér yfirburðarstöðu sína gagnvart stúlkunni sökum aldurs- og þroskamunar þegar þeir höfðu samfarir við stúlkuna án hennar samþykkis. Yngri maðurinn var ákærður fyrir að hafa látið stúlkuna hafa munnmök við sig. Hann var sýknaður í málinu.

Brot mannanna vörðuðu 194. grein almennra hegningarlaga sem snýr að nauðgun og hefur refsiramma upp á sextán ára fangelsi.

Fyrir hönd stúlkunnar var þess krafist að mennirnir þrír greiddu sameiginlega fimm milljónir króna í miskabætur. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að þeir tveir sakfelldu ættu að greiða stúlkunni 1,3 milljónir króna hvor í miskabætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×