Fótbolti

Fyrirliði Shakhtar rekinn út af fyrir að bregðast við rasisma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Taison varð fyrir barðinu á kynþáttaníði í gær.
Taison varð fyrir barðinu á kynþáttaníði í gær. vísir/getty
Taison, fyrirliði Shakhtar Donetsk, var rekinn af velli í 1-0 sigri liðsins á Dynamo Kiev í úkraínsku úrvalsdeildinni í gær fyrir að bregðast við kynþáttaníði stuðningsmanna gestanna.

Þeir hrópuðu ókvæðisorð af Taison sem fékk á endanum nóg. Hann sýndi stuðningsmönnum Dynamo fingurinn og sparkaði boltanum svo í átt að þeim.



Dómarinn stöðvaði leikinn á 77. mínútu. Þegar hann hófst fimm mínútum síðar var Taison rekinn af velli.

Hinn brasilíski Taison og landi hans, Dentinho, urðu báðir fyrir barðinu á stuðningsmönnum Dynamo og gengu grátandi af velli.

„Ég styð alla sem verða fyrir barðinu á kynþáttafordómum. Allar birtingarmyndir rasisma eru óásættanlegar. Þetta var, og er alltaf, öllum til skammar. Við verðum að standa saman í baráttunni gegn rasisma, hverja einustu mínútu, hverja einustu sekúndu,“ sagði Luís Castro, knattspyrnustjóri Shakhtar, eftir leikinn í gær.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem stuðningsmenn Dynamo gerast sekir um rasisma. Fyrir fjórum árum þurfti liðið að spila tvo Evrópuleiki fyrir luktum dyrum eftir að ráðist var á fjóra þeldökka áhorfendur á heimavelli liðsins í leik gegn Chelsea.

Í yfirlýsingu frá Dynamo í gær kom fram að félagið ætlaði að leggja rannsókn málsins lið og refsa þeim seku.

Taison, sem er 31 árs, hefur leikið með Shakhtar síðan 2013. Hann hefur fimm sinnum orðið úkraínskur meistari og fimm sinnum bikarmeistari með liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×