Erlent

Stjórnarkreppudraugur vofir enn yfir á Spáni

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Skipting þingsæta á meðal stærstu flokka í neðri deild spænska þingsins.
Skipting þingsæta á meðal stærstu flokka í neðri deild spænska þingsins. Vísir/Grafík
Ekki er útlit fyrir að stjórnarkreppan á Spáni leysist eftir kosningar gærdagsins. Þetta voru fjórðu þingkosningarnar á jafnmörgum árum.

Sósíalistaflokkur Pedros Sanchez, starfandi forsætisráðherra, fékk flest sæti í kosningunum, 120 talsins, en er þó hvergi nærri þeim 176 sætum sem þarf til þess að mynda meirihluta.

Vinstriflokkurinn Podemos tapaði sjö sætum en enginn flokkur kemur jafnilla út úr kosningunum og Borgaraflokkurinn sem hrapar úr 57 sætum niður í 10 sæti. Eins manns dauði er annars brauð og stórgræddu bæði Lýðflokkurinn og öfgaíhaldsflokkurinn VOX á tapi Borgaraflokksins.

Þar sem hvorki hægri né vinstri blokkin hefur möguleika á meirihluta er ljóst að staðan er enn flókin. Ekki hefur tekist að kveða niður stjórnarkreppudrauginn. Ljóst er að margir Spánverjar eru orðnir þreyttir á þessum linnulausu kosningum.

Til þess að mynda meirihluta þarf Sósíalistaflokkurinn væntanlega að treysta á Podemos og svo bæði katalónska og baskneska aðskilnaðarsinna. Það gekk ekki eftir kosningar aprílmánaðar.

Nokkur fjöldi katalónskra sjálfstæðissinna mótmælti Spánarstjórn í dag með því að loka landamærunum við Frakkland. Fangelsisdómar yfir leiðtogum hreyfingarinnar eru ekki til þess fallnir að vekja áhuga sjálfstæðissinna á samstarfi við Sósíalistaflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×