Innlent

Á 142 kílómetra hraða undir áhrifum áfengis

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Alls voru 39 kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku.
Alls voru 39 kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku. vísir/vilhelm

Erlendur ferðamaður sem var á ferð um Suðurlandsveg við Stórólfshvol síðastliðinn þriðjudag var tekinn á 142 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund.

Var manninum gert að greiða 420 þúsund krónur í sekt auk þess sem hann var sviptur ökuréttindum í 18 mánuði en að því er segir á vef lögreglunnar spilar þar inn í að hann var undir áhrifum áfengis við stýrið. Mældist áfengismagn í blóði hans 1,57 prómill.

Tveimur dögum síðar var ökumaður sem ók bíl sínum á 163 kílómetra hraða um Suðurlandsveg við Dalsel sektaður um 230 þúsund krónur ásamt viðeigandi sviptingu ökuréttinda. Er hámarkshraðinn þar sem hann ók 90 kílómetrar á klukkustund en alls voru 37 aðrir kærðir fyrir að aka of hratt í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi í liðinni viku.

Þá voru 17 umferðaróhöpp í umdæminu og tvö önnur slys. Flest hafi umferðarslysin verið án meiðsla eða meiðsli í minniháttar.

4. nóvember varð árekstur tveggja jepplinga sem komu úr gagnstæðum áttum á Suðurlandsvegi við Sléttaland. Ökumenn og farþegar beggja bíla voru flutt á sjúkrahús í Reykjavík með þyrlu Landhelgisgæslunnar og eru öll eitthvað meidd en þó ekki lífshættulega, að því er segir á vef lögreglunnar.

Daginn eftir varð síðan árekstur jepplings og vöruflutningabifreiðar á þjóðvegi 1, skammt frá Steinavötnum.

„Jepplingurinn virðist hafa flotið upp í krapi og lent framan á vörubifreiðinni með þeim afleiðingum að framhjól rifnaði undan vörubifreiðinni auk þess sem jepplingurinn gjöreyðilagðist. Bæði ökumaður og farþegi jepplingsins voru fluttir með þyrlu LHG á sjúkrahús í Reykjavík ásamt ökumanni vörubifreiðarinnar en meiðsl þeirra reyndust hins vegar mun minni en útlit var fyrir í upphafi,“ segir á vef lögreglunnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.