Erlent

ISIS-liði fastur í einskismannslandi í þrjá daga

Samúel Karl Ólason skrifar
Maðurinn er sagður heita Muahammed Darwis B og ku hann vera bandarískur ríkisborgari sem rekur uppruna sinn til Jórdaníu.
Maðurinn er sagður heita Muahammed Darwis B og ku hann vera bandarískur ríkisborgari sem rekur uppruna sinn til Jórdaníu. Vísir/AP

Yfirvöld Tyrklands vísuðu á mánudaginn manni, sem sagður er vera bandarískur ISIS-liði frá Tyrklandi. Hann hefur setið fastur í einskismannslandi milli Tyrklands og Grikklands síðan þá. Grikkir neita að hleypa manninum inn í land þeirra og Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, segir hann ekki koma Tyrklandi lengur við.

Samkvæmt fjölmiðlum ytra segja embættismenn í Tyrklandi að maðurinn hafi neitað að vera sendur til Bandaríkjanna og bað þess í stað um að vera sendur til Grikklands.

Maðurinn er sagður heita Muahammed Darwis B og ku hann vera bandarískur ríkisborgari sem rekur uppruna sinn til Jórdaníu. Nánar tiltekið situr hann fastur á landamærum ríkjanna nærri bænum Kastanies.

Þegar Erdogan var spurður út í manninn sagði hann það ekki skipta Tyrki máli. ISIS-liðar yrðu áfram sendir frá Tyrklandi, hvort sem tekið væri á móti þeim eða ekki, það komi Tyrkjum í raun ekki við.

Sjá einnig: Tyrkir ætla að senda hundruð ISIS-liða til Evrópu

Hann sagði sömuleiðis í gær að ef forsvarsmenn Evrópu breyttu ekki stöðu sinni gagnvart Tyrklandi gæti ríkisstjórn hans sleppt öllum ISIS-liðum sem eru í haldi í Tyrklandi og sent þá til Evrópu. Tyrkir halda hundruð erlendra vígamanna samtakanna í Tyrklandi og segjast hafa handsamað tæplega 300 í Sýrlandi. Til stendur að senda um 1.500 til heimalanda sinna á næstunni. Þó er búið að svipta einhverja þeirra ríkisborgararétti.

Reuters hefur eftir innanríkisráðherra Tyrklands að að yfirvöld í Hollandi og Þýskalandi hafi samþykkt að taka á móti einhverjum ISIS-liðum og fjölskyldum þeirra. Hann hefur einnig sagt að til standi að vísa vígamönnum frá Írlandi, Frakklandi og Danmörku úr landi.

Frakkar hafa sagst ætla að taka á móti ellefu vígamönnum og Írar ætla að taka á móti tveimur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.