Erlent

Lækka hraða vegna mengunar

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Bændur mótmæltu nýlega hertum reglum um útblástur.
Bændur mótmæltu nýlega hertum reglum um útblástur. Vísir/getty
Ríkisstjórn Hollands hefur ákveðið að lækka hámarkshraða á þjóðvegum landsins til að draga úr útblæstri og mengun. Forsætisráðherrann, Mark Rutte, segir þetta vera stórt skref í að takast á við mikla nituroxíðmengun.

Í dag er hámarkshraðinn á þjóðvegum Hollands 130 kílómetrar á klukkustund en hann verður lækkaður strax á næsta ári niður í 100. Eftir breytinguna mun Holland verða með einhvern lægsta hámarkshraða á meginlandi Evrópu.

Útblástur er mikið vandamál í Hollandi og landið hefur ekki náð markmiðum Evrópusambandsins í þeim efnum. Innviðauppbygging, til að mynda í flugrekstri og vegauppbyggingu, hefur tafist vegna þessa en Rutte segir að með hraðabreytingunni verði hægt að spýta í lófana á ný.

Hingað til hefur sökinni á miklum útblæstri að stórum hluta verið skellt á bændur. Í október keyrðu þeir á dráttarvélum í öllum helstu borgum landsins til að mótmæla hertum útblástursreglum. Samband bílasala í Hollandi gagnrýnir áætlanir stjórnvalda og segja þær skila litlu í stóra samhenginu. Umhverfissamtök hafa hins vegar fagnað þeim og segja þær skref í rétta átt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×