Innlent

Sagði umfjöllun „árás á starfsmenn Samherja“

Samúel Karl Ólason skrifar
Þorsteinn Már Baldvinnsson, fráfarandi forstjóri Samherja.
Þorsteinn Már Baldvinnsson, fráfarandi forstjóri Samherja. Vísir/Tryggvi.
Þorsteinn Már Baldvinsson, fráfarandi forstjóri Samherja, stappaði stálinu í starfsfólk félagsins á fundi í fiskvinnslu félagsins á Dalvík á fimmtudaginn. Hann byrjaði fundinn á því að segja umfjöllun um meintar mútugreiðslur og annað sem viðkemur starfsemi Samherja í Namibíu vera „árás á starfsmenn Samherja“. Því hefði hann ákveðið að stíga til hliðar. Til að vernda starfsfólkið.

Samherji hefur verið sakaður um umfangsmiklar mútugreiðslur í Namibíu og um að hafa greitt namibískum áhrifamönnum hundruð milljóna króna til að koma höndum yfir kvóta þar.

Fréttamaður og kvikmyndatökumaður Stöðvar 2 voru viðstaddir starfsmannafundinn á fimmtudaginn.

„Mér finnst að þessum árásum á ykkur og annað starfsfólk Samherja á Íslandi, sem hefur staðið sig vel, því verði að linna. Þess vegna vonast ég til þess að með því í að stíga sjálfur til hliðar, og þá axla ábyrgð á hugsanlega einhverju sem að hefur verið misfarið í Afríku, þá sé hægt að beina ábyrgðinni að mér. Allavega tímabundið á meðan við erum að fara yfir þessi mál,“ sagði Þorsteinn í ávarpi sínu til starfsmanna.

Hann sagði búið að saka félagið um ýmislegt.

„Ég veit það þó að í sumum málum þá höfum við gert rétta hluti. Eins og í skattamálum og ýmsu öðru. Sem er mikilvægt.“

Þorsteinn sagðist þar að auki í þeirri trú að starfsmennirnir á fundinum stæðu við bakið á sér og félaginu, eins og þau hefðu alltaf gert.

Sagði fólki að hunsa neikvæðar fréttir

Björgólfur Jóhannsson, sem tók við af Þorsteini sem forstjóri Samherja, tímabundið, ávarpaði einnig starfsfólkið og sagði að vel þyrfti að vinna í þessu máli og „sýna fram á að það sé nú ekki allt kannski, eins og lagt hefur verið upp síðustu daga.“

Hann sagði mikilvægt að starfsfólk fyrirtækisins sneri bökum saman og héldi áfram að sinna störfum sínum. Þau ættu ekki að hlusta á neikvæðar fréttir um félagið.

„Við eigum að vera stolt af því að vinna hjá Samherja, við eigum ekki að vera að hlusta á neikvæðar fréttir um félagið, sem að margar hverjar eru ekki réttar. Þannig að það er mikilvægt að við stöndum saman og förum út og séum stolt af því að vinna hjá þessu félagi.

Björgólfur sagði einnig verk að vinna við að hreinsa þann „áburð sem er í gangi“ og sýna fram á hvað sé rétt og hvað sé rangt.


Tengdar fréttir

„Samherji í Íslandi er komið í rasshaft“

Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort Þorsteinn Már Baldvinsson muni segja sig frá stjórnarformennsku í Framherja í Færeyjum á meðan rannsókn á starfsháttum Samherja í Namibíu stendur yfir.

Þorsteinn Már stígur til hliðar

Forstjóri og stjórn Samherja hafa komist að samkomulagi um að forstjóri félagsins, Þorsteinn Már Baldvinsson, stígi tímabundið til hliðar þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.

Segir erfið verkefni bíða sín sem forstjóri Samherja

Stjórn Samherja óskaði eftir því að Björgólfur tæki starfið að sér á meðan Þorsteinn Már Baldvinsson stígur til hliðar sem forstjóri þar til helstu niðurstöður yfirstandandi innri rannsóknar á ætluðum brotum dótturfélags í Namibíu liggja fyrir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.