Erlent

Segja erfitt að leggja mat á tjónið vegna flóðanna í Feneyjum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Markúsartorgið í Feneyjum var opnað íbúum og ferðamönnum að nýju í dag en torginu var lokað í gær vegna mikilla flóða. Eyðilegging vegna flóðanna er þegar orðin gífurleg.

Stjórnvöld á Ítalíu lýstu yfir neyðarástandi á fimmtudaginn og hyggjast verja töluverðum fjárhæðum í viðgerðir vegna þeirra skemmda sem orðið hafa í flóðinu í borginni sögufrægu.

Verslunareigendur hófust handa í morgun við að hreinsa til eftir að flætt hafði inn í verslanir þeirra. Bóka- og skartgripasalar í borginni segja erfitt að leggja mat á hversu tjónið er mikið fyrir reksturinn. „Það er erfitt að segja. Um það bil þúsund til tvö þúsund evrur. Þúsund bækur. Ég hef ekki talið þetta. Enginn bjóst við þessu,“ segir bóksalinn Luigi Frizzo

„Skemmdirnar eru mjög miklar. Sérstaklega í þessari verslun af því að þetta eru allt rándýrar gæðavörur,“ segir Dorina Vullko skartgripasali.

Þótt vatnshæðin á Markúsartorginu í gær hafi verið það mikil að ákveðið var að loka var staðan þó ekki góð í dag. Spáin fyrir morgundaginn lofar ekki heldur góðu. Flóðin eru þau mestu í borginni síðan 1966. Borgarstjóri Feneyja hefur sagt loftslagsbreytingum af mannavöldum um að kenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×