Erlent

Efna­fræði­prófessorar handteknir grunaðir um fram­leiðslu met­am­feta­míns í skóla

Eiður Þór Árnason skrifar
Engar fregnir hafa borist af því hvort mennirnir hafi séð sjónvarpsþættina Breaking Bad.
Engar fregnir hafa borist af því hvort mennirnir hafi séð sjónvarpsþættina Breaking Bad. Vísir/AP
Tveir efnafræðiprófessorar í Arkansasríki í Bandaríkjunum voru handteknir á föstudag, grunaðir um að hafa stundað framleiðslu á metamfetamíni. Grunur leikur einnig á því að mennirnir hafi búið til efnin á vinnustaðnum.

Terry David Bateman og Bradley Allen Rowland eru báðir prófessorar í efnafræði á fimmtugsaldri við Henderson ríkisháskólann í borginni Arkadelphia. Þeir voru sendir í leyfi frá skólanum þann 11. október síðastliðinn, þremur dögum eftir að tilkynnt var um óvenjulega efnalykt í einni af vísindabyggingum skólans.

Samkvæmt upplýsingum frá talskonu háskólans leiddu athuganir í ljós að marktækt magn hafi verið af efninu benzyl chloride í einni rannsóknarstofanna, er fram kemur í frétt Washington Post. Efnið sem um ræðir er meðal annars sagt vera notað við framleiðslu metamfetamíns.

Fulltrúi skólans vildi ekki staðfesta í samtali við fréttastofu CNN hvort mennirnir séu grunaðir um hafa búið til efnin innan veggja skólans. Lögregluyfirvöld segja þó að rannsókn þeirra á mönnunum hafi byrjað í kjölfar upplýsinga frá yfirlögregluþjóni háskólans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.