Innlent

Bátur brann og sökk í höfnina í Vogum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Stór trébátur brann í höfninni í Vogum á Vatnsleysuströnd í nótt. Ekki tókst að slökkva eldinn heldur sökk báturinn og hvílir nú á botni hafnarinnar.

Ármann Árnason, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir að báturinn hafi verið alelda þegar slökkvilið kom á vettvang. „Nánast brunninn niður í kjölinn,“ að sögn Ármanns  og því mikið tjón fyrir eiganda hans. Ármann telur að báturinn, sem var „trébátur af eldri gerðinni“ eins og hann orðar það, hafi logað lengi áður tilkynning barst klukkan 04:25.

Byrjað hafi verið á því að dæla froðu í bátinn og áætlar Ármann að eftir um 45 mínútur hafi báturinn sokkið af sjálfsdáðum. Engin hætta hafi verið á ferðum en bryggjukantur hafi þó skemmst. Að sama skapi er ekki útilokað að einhver olía úr bátnum hafi lekið í höfnina en olíubrák mátti sjá á sjávarfletinum.

Vindáttin hafi þó verið hagstæð og því ekki taldar miklar líkur á því að eldurinn bærist í aðra báta.

Hafnaryfirvöld taka nú við málinu, sem mun til að mynda ákveða hvort báturinn verður sóttur á hafsbotn, en lögregluvakt verður áfram á staðnum. Málið er til rannsóknar og liggja eldsupptök ekki fyrir á þessu stundu.

Slökkviliðsmenn að störfum.Vísir/JKJ



Fleiri fréttir

Sjá meira


×