Innlent

Segja gjaldkera hafa kafað djúpt í vasa Sportkafarafélagsins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sportkafarafélagið hefur gert út köfunarferðir fyrir félagsmenn frá stofnun þess og er með bækistöðvar í Nauthólsvík. Mynd tengist fréttinni ekki beint.
Sportkafarafélagið hefur gert út köfunarferðir fyrir félagsmenn frá stofnun þess og er með bækistöðvar í Nauthólsvík. Mynd tengist fréttinni ekki beint. Vísir/getty
Sportkafarafélag Íslands sakar gjaldkera félagsins um að hafa tæmt reikninga þess og dregið sér samtals rúmar þrjár milljónir króna. Greint er frá ásökununum í færslu sem Sportkafarafélagið birti á Facebook í gærkvöldi. Formaður Sportkafarafélagsins staðfestir í samtali við fréttastofu að félagið hyggist kæra gjaldkerann til lögreglu.

Í færslu félagsins, sem birt var seint í gærkvöldi, kemur fram að haldinn hafi verið „erfiður neyðarfundur“ vegna meints fjárdráttar í gær.

„Gjaldkeri félagsins náði að hreinsa alla reikninga okkar niður í 0 krónur og hætti auk þess að greiða reikningana okkar sem og endurgreiðslur trygginga vegna leigu í nokkurn tíma undanfarið,“ segir í færslunni.

Félagið væri þess vegna skuldugt um þessar mundir. Hugmyndir um úrbætur á því hefðu verið ræddar á fundinum í gær og að endingu hefði verið fallist á að senda strax út greiðsluseðla fyrir félagsgjöld næsta árs.

Þá verði lögð fram kæra til lögreglu á hendur gjaldkeranum og málinu fylgt eftir „af fullri hörku“. Færsluna má sjá hér að neðan.

Færsla Sportkafarafélags Íslands sem birt var í gærkvöldi.Skjáskot/Facebook
Arnbjörn Kristjánsson formaður Sportkafarafélag Íslands staðfestir í samtali við Vísi að félagið telji gjaldkerann hafa dregið sér fé af reikningum félagsins, samtals rúmar 3,2 milljónir. Þá séu stjórnendur félagsins búnir að safna saman gögnum og fá tíma hjá lögreglu til að leggja fram kæru.

Gjaldkerinn vildi ekki tjá sig um málið þegar leitað var eftir því.

Sportkafarafélag Íslands var stofnað árið 1982. Félagið hefur gert út köfunarferðir fyrir félagsmenn frá stofnun þess og er með bækistöðvar í Nauthólsvík. Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu félagsins hafa virkir félagsmenn verið árlega allt að 75 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×