Fótbolti

Cloé Lacasse með tvö tíu marka tímabil á árinu 2019

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cloé Lacasse með liðsfélögum sínum í Benfica.
Cloé Lacasse með liðsfélögum sínum í Benfica. Mynd/Twitter/SLBenfica
Hin kanadíska-íslenska Cloé Lacasse skoraði sína aðra þrennu með Benfica á tímabilinu um helgina þegar topplið portúgölsku deildarinnar vann 10-0 stórsigur á Cadima.

Cloé Lacasse hefur þar með skorað 10 mörk í fyrstu 6 deildarleikjum sínum með Benfica og er næstmarkhæsti leikmaður deildarinnar á eftir hinni brasilísku Darlene.





Cloé skoraði mörkin sín á 10., 66. og 85. mínútu leiksins. Hún kom Benfica fyrst í 2-0 og svo í 6-0 og 9-0. Darlene skoraði líka þrennu fyrir Benfica í þessum leik.

Cloé fór til Benfica í ágúst en fram að því hafði hún spilað með ÍBV í Pepsi Max deild kvenna.

Cloé skoraði 11 mörk í 12 leikjum með ÍBV áður en hún fór til Portúgal.

Cloé Lacasse er því komin með tvö tíu marka tímabil á árinu 2019. Samtals er hún með 21 mark í aðeins 18 deildarleikjum á þessu ári.

Cloé fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrr á þessu ári en fékk ekki keppnisleyfi með landsliðinu fyrir verkefni haustsins.

Cloé fær vonandi sín fyrstu tækifæri með íslenska landsliðinu á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×