Erlent

Bjóða dæmdum mönnum fé til að flytja úr „gettóum“ Óðins­véa

Atli Ísleifsson skrifar
Ákvörðunin að bjóða dæmdum fé til að flytja naut víðtæks stuðnings í borgarstjórn Óðinsvéa.
Ákvörðunin að bjóða dæmdum fé til að flytja naut víðtæks stuðnings í borgarstjórn Óðinsvéa. Getty

Borgaryfirvöld í Óðinsvéum hafa boðið þeim sem hafa fengið dóm á árinu 2019 og búa í ákveðnum hverfum borgarinnar 15 þúsund danskar krónur, um 280 þúsund íslenskar, til að flytja á brott.

Telja stjórnvöld að kostnaðurinn verði meiri, fari svo að fólkið verði allt um kyrrt, vegna þeirra krafna sem koma fram í hinum svokölluðu „gettólögum“ sem samþykkt voru á danska þinginu á síðasta ári.

Fréttir bárust af því um helgina að borgaryfirvöld í Óðinsvéum hafi hengt upp auglýsingar víðs vegar í hverfunum Påskeløkken, Risingparken, Smedeløkken og Solbakken. Þar stóð: „Tilboð. Styrkir til flutninga. Hefur þú hlotið dóm á árinu 2019? Þá átt þú möguleika á aðstoð vegna nýs upphafs. 15.000 krónur og greitt fyrir flutning.“

Fyens Stiftstidende greindi fyrst frá framtakinu sem hefur skapað nokkra umræðu í Danmörku. „Gettólögin“ svokölluðu tóku gildi í nóvember á síðasta ári sem skylda sveitarstjórnir og fasteignafélög til að breyta samsetningu íbúa í íbúahverfum sem hafna á svokölluðum „hörðum gettólista“, þar sem félagsleg vandamál eru skilgreind sérstaklega mikil.

Með framtakinu vilja yfirvöld í Óðinsvéum koma í veg fyrir að umrædd hverfi hafni á listanum.Til að framfylgja lögunum er sveitarstjórnum veitt heimild til að rífa heilu íbúðablokkirnar og flytja heilu fjölskyldurnar nauðungaflutningum. Ákvörðunin að bjóða dæmdum fé til að flytja naut víðtæks stuðnings í borgarstjórn Óðinsvéa.

Fjölmargir hafa þó gagnrýnt „gettólögin“, bæði vegna orðanotkunarinnar og að þau feli í sér árás á almennan húsnæðismarkað í Danmörku. Eru þau sögð knúin áfram af fólki sem vill auka einkavæðingu á húsnæðismarkaði.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.