Innlent

Landfylling í Sundahöfn tekur á sig mynd

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Vörubílar hafa ekið fimmtán þúsund ferðir með grjót, mold og möl úr grunni við nýja Landspítalann í Sundahöfnina. Þar er stór landfylling nú að taka á sig mynd.

Framkvæmdir við nýjan Landspítala standa nú yfir og er unnið er að því að gera grunninn að meðferðarkjarnanum sem er stærsta byggingin sem reisa á á svæðinu. Byggingin verður sjötíu þúsund fermetrar og falla því til við vinnuna mikið af jarðefnum eins og mold, grjót og möl. 

„Þetta eru auðvitað gríðarlega miklir brottflutningar á efni og við erum að tala um tvö hundruð og fimmtíu til þrjú hundruð þúsund rúmmetra. Sem að eru um tuttugu og tvö þúsund, tuttugu og þrjú þúsund kannski, vörubílar,“ segir Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Hringbrautarverkefnisins.

Þegar er búið að fara með stóran hluta að Laugarnestanga. „Við erum búin að fara með um 70% af þessu sem eru um fimmtán þúsund ferðir,“ segir Gunnar.

Allt jarðefnið er flutt að Laugarnestanga við Skarfaklett í landfyllingu. Þar eiga framtíðarhöfuðstöðvar Faxaflóahafna meðal annars að rísa. „Þetta er í raun og veru mjög stórt verkefni að ná þessu fram hvar efnið ætti að fara og víða leitað fanga. Bæði hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum skoðað og annað en sem betur fer þá náðist þetta góða verkefni með Faxaflóahöfnum fram og það er mikils virði fyrir samfélagið allt að það er verið að nýta efnið hér til góðra verka,“ segir Gunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×