Enski boltinn

Falleg sjón fyrir stuðningsmenn Liverpool: Vinir á ný

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah og Sadio Mané lögðu upp mark fyrir hvorn annan í gærkvöldi.
Mohamed Salah og Sadio Mané lögðu upp mark fyrir hvorn annan í gærkvöldi. Getty/John Powell
Stuðningsmenn Liverpool fengu ekki aðeins að sjá öruggan sigur í Meistaradeildinni í gærkvöldi heldur hlýjuðu tvö síðustu mörk liðsins örugglega mörgum þeirra um hjartaræturnar.

Það var smá fjölmiðlafár í kringum framherjapar Liverpool fyrr á tímabilinu þegar það fauk í Sadio Mane eftir að Mohamed Salah gaf ekki á hann í góðu færi.

Mohamed Salah og Sadio Mané hugsa ekki aðeins um að safna stigum fyrir Liverpool því þeir eru líka í baráttunni um markakóngstitilinn.

Sadio Mané byrjaði tímabilið af krafti og hefði getað skorað sitt annað mark í leiknum í umræddum Burnley leik í lok ágúst. Salah var aftur á móti ekki búinn að skora í leiknum.





Sadio Mané og Mohamed Salah skoruðu báðir 22 deildarmörk á síðasta tímabili og fengu báðir gullskóinn. Þetta var annað árið í röð sem Mohamed Salah fékk gullskóinn. Mohamed Salah er einu marki á eftir Sadio Mané á markalistanum á þessu tímabili en það eru líka sex leikmenn á undan Mané.

Knattspyrnustjórinn Jürgen Klopp og fyrirliðinn Jordan Henderson gerðu báðir lítið úr reiðikasti Sadio Mané og svo tók við tveggja vikna landsleikjahlé þannig að þeir fengu báðir smá frí frá hvorum öðrum.  

Allt hefur verið í góðu á milli framherjana síðan og Liverpool liðinu hefur gengið vel inn á vellinum. Það var hinsvegar tíu mínútna kafli í Meistaradeildarleiknum á móti Genk í gær sem gladdi stuðningsmenn Liverpool sérstaklega mikið.





Mohamed Salah byrjaði þá á því að leggja upp mark fyrir Sadio Mané og aðeins tíu mínútum síðar launaði Mané honum greiðann með því að leggja upp mark fyrir Mohamed Salah.

Sadio Mané er nú með 9 mörk og 2 stoðsendingar í 13 leikjum á tímabilinu í öllum keppnum en Mohamed Salah er með 7 mörk og 4 stoðsendingar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×