Enski boltinn

„Fékk sent myndband af honum og ég skildi ekki hvað hann var að segja“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Robin van Persie og Unai Emery.
Robin van Persie og Unai Emery. vísir/getty
Robin van Persie, fyrrum framherji Arsenal, er ekki hrifinn af Unai Emery, stjóra félagsins, og segir að hann hafi mistekist að tengjast leikmönnum liðsins.

Arsenal marði 3-2 sigur á portúgalska liðinu Vitoria í Evrópudeildinni í gær en tvö aukaspyrnumörk frá Nicolas Pepe tryggðu norður-Lundúnarliðinu sigurinn.

Hollendingurinn Persie sagði að sumir leikmennirnir hefðu nánast ekki nennt að hlaupa til baka og aðspurður hvort að Arsenal væri betri undir stjórn Emery svaraði hann:

„Ég held ekki. Ég held að Emery tengi ekki við leikmennina. Þeir eru enn veikir í föstum leikatriðum og það var einnig vandamál þegar ég var þarna,“ sagði Van Persie á BT Sport í gær.

„Allir ættu að taka ábyrgð á þessu. Spilarðu svæðisvörn eða maður á mann? Mér finnst að þegar þú ert í vandræðum þá spilaru maður á mann því þá dekkaru bara þinn mann og berð ábyrgð á honum.“

„Í síðustu viku fengu þeir mark á sig eftir horn. Ég sagði þetta fyrir nokkrum vikur að Arsenal tapar 12-15 stigum á tímabili eftir mörk úr föstum leikatriðum og það ætti að vera hægt að koma í veg fyrir það.“







Van Persie var, eins og áður segir, ekki ánægður með vinnuframlag Arsenal-liðsins í leiknum.

„Sem leikmaður viltu hafa þá tilfinningu að þú verður að hlaupa til baka og þú sérð nokkra leikmennina skokka til baka. Það er hættulegt.“

„Ef þú ert með mjög öflugan stjóra og þú ert miðjumaður og þú sérð að það séu vandræði einhvers staðar. Hlauptu fyrir lífi þínu því ef þú gerir það ekki verður þér refsað.“

Fyrrum framherjinn fékk sent myndband í síðustu viku og hann var ekki hrifinn en mikið hefur verið talað um enskuna hjá Emery. Hún er ekki upp á marga fiska og sumir telja hana óskiljanlega.

„Ég hef haft Wenger, Louis van Gaal, Ferguson og svo marga stjóra. Þeirra helsti styrkleiki var að þeir voru skýrir. Ef ég á að vera hreinskilinn þá sendi mér einhver myndband af Emery í síðustu viku.“

„Hann var að reyna útskýra eitthvað og ég skildi ekki hvað hann var að segja. Það er mjög miilvægt. Þú verður að vera skýr. Þú verður að vera leiðtogi og hann þarf að vera skýr varðandi sína leikmenn,“ sagði Persie.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×