Innlent

Nýtt leiðanet Strætó og borgarlínu: Styttri ferðatími en lengri ganga á næstu biðstöð

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Drög að nýjum stofnleiðum má sjá á þessu korti.
Drög að nýjum stofnleiðum má sjá á þessu korti. Mynd/Strætó
Drög að nýju leiðaneti almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu voru kynnt í gær. Leiðanetinu verður skipt í tvo flokka: stofnleiðir og almennar leiðir og taka fyrstu hugmyndir mið af því. Umfangsmestu breytingarnar felast m.a. í nýju skipulagi við Hlemm og nýrri endastöð á BSÍ-reitnum.

Í kynningu leiðanetsins á vefsíðu Strætó segir að stofnleiðanetið sé skipulagt sem burðarásinn í kerfinu. Tilgangur þess verði að flytja mikinn fjölda farþega á sem stystum tíma. Áætlað er að vagnar á stofnleiðum aki á 7-10 mínútna fresti á annatímum og 15-20 mínútna fresti utan annatíma. Þá er áætlað að borgarlínan muni leysa hluta stofnleiðanets Strætó af hólmi eftir því sem sérrými Borgarlínu byggist upp.

Þá verður leitast við að tengja hverfi höfuðborgarsvæðisins við stofnleiðanet Strætó og Borgarlínu. Áætlað er að almennar leiðir aki á 15 mínútna tíðni á annatíma og á 20-30 mínútna tíðni utan annatíma.

Leiðanetið með bæði stofnleiðum og almennum leiðum.Mynd/Strætó
Leiðanetið verður innleitt í skrefum eftir því sem hægt er en stærstu breytingarnar eru áætlaðar um 2023, þegar gert er ráð fyrir að fyrsta áfanga borgarlínu verði lokið.

Umfangsmestu breytingarnar munu felast í nýju skipulagi við Hlemm þar sem einungis verður gegnumakstur almenningssamgangna, nýrri endastöð á BSÍ reit, brú yfir Fossvog og nýrri skiptistöð í Vogabyggð.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, tók leiðanetið til umfjöllunar á Twitter-reikningi sínum í gær. Hún sagði leiðanetið byggt á svokölluðu „Ridership“-neti, sem feli í sér ákveðnar breytingar á núverandi Strætókerfi.

„Í slíku neti er mest tíðni þar sem þéttleiki íbúa og vinnustaða er mestur. Leiðirnar eru beinni, með örari tíðni, styttri ferðatíma og fleiri farþega.  Á móti, gætu farþegar þurft að fara lengri vegalengdir á næstu biðstöð.“

Hér má nálgast gagnvirkt kort af nýja leiðakerfinu. Á síðunni má jafnframt senda inn hugmyndir eða ábendingar um kerfið en í tilkynningu Strætó segir að lögð verði mikil áhersla á þátttöku almennings í mótun kerfisins, til dæmis varðandi legu leiða og staðsetningu stoppistöðva.

Strætó mun halda opin hús á nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Áhugasamir geta komið við, kynnt sér leiðanetið og komið sínum ábendingum á framfæri við starfsfólk Strætó og verkefnastofu borgarlínu. Hér fyrir neðan má sjá staðsetningu og dagsetningu opnu húsanna: 

Dagsetning

Tími

Staðsetning

 21. október15:00-18:00

Háholt í Mosfellsbæ

22. október 15:00-18:00

Mjódd

 24. október15:00-18:00

Smáralind

 28. október15:00-18:00

Fjörður

 29. október12:00-14:00

Háskólatorg

29. október 16:00-18:00

Háskólatorg

31. október 16:00-18:00 

Ráðhús Garðabæjar, Garðatorg 7


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×