Fótbolti

Þjálfari Búlgara biður enska landsliðið afsökunar

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Balakov ræðir við Sterling
Balakov ræðir við Sterling vísir/getty
Krasimir Balakov, landsliðsþjálfari Búlgaríu, sendi frá sér yfirlýsingu í morgun í kjölfar leiksins gegn Englandi í undankeppni EM 2020 á dögunum.

Þar biður hann meðal annars ensku landsliðsmennina afsökunar á hegðun stuðningsmanna Búlgara.

„Ég fordæmi hvers kyns rasisma skilyrðislaust og lít á það sem óásættanlega hegðun í mannlegum samskiptum. Fordómar ættu að vera grafðir djúpt í okkar fortíð og enginn ætti nokkurn tímann að þurfa að upplifa kynþáttafordóma. Ég hef þjálfað mörg búlgörsk lið sem hafa haft leikmenn af ólíkum kynþáttum og hef aldrei dæmt menn eftir því.“

„Ummæli mín í aðdraganda leiksins, að Búlgarir ættu ekki í vandræðum með rasisma, voru byggð á því að þetta hefur ekki verið vandamál í búlgörsku úrvalsdeildinni. Stærstur hluti stuðningsmanna tekur ekki þátt í þessu og ég trúi því að svo hafi líka verið gegn Englandi,“ segir Balakov.

Balakov hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín í viðtölum eftir leikinn en hann segir ummæli sín hafa verið tekin algjörlega úr samhengi. Hefur hann í kjölfarið mátt þola persónuárásir, meðal annars á samfélagsmiðlum.

„Eitt þarf að vera algjörlega á hreinu að ég bið leikmenn enska landsliðsins innilegrar afsökunar. Á sama tíma vil ég koma því á framfæri að hatursfull ummæli í minn garð á samfélagsmiðlum verða ekki liðin. Orð mín eftir leikinn hafa verið tekin algjörlega úr samhengi og ég neyðist til að grípa til lagalegra úrræða ef þessum árásum linnir ekki,“ segir einnig í yfirlýsingu Balakov sem sjá má í heild sinni hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×