Enski boltinn

Özil opnar sig um árásina í sumar í ítarlegu viðtali

Anton Ingi Leifsson skrifar
Özil og Kolasinac á góðri stundu.
Özil og Kolasinac á góðri stundu. vísir/getty
Mesut Özil, leikmaður Arsenal, hefur í fyrsta sinn tjáð sig um hnífa árásina sem hann og liðsfélagi hans, Sead Kolasinac, urðu fyrir í sumar.

Arsenal-mennirnir voru úti með konum sínum að keyra á götum Lundúnarborgar er tveir vopnaðir menn réðust að bílnum.

Özil og Kolasinac ásamt eiginkonum þeirra komust í burtu eftir mikinn hamagang en þetta varð til þess að þeir misstu af byrjun ensku úrvalsdeildarinnar enda var óttast um öryggi þeirra.

Þjóðverjinn opnaði sig um atvikið í samtali við The Athletic.

„Ég keyrði frá heimili mínu til Sead. Hann var fyrir utan og við spjölluðum saman. Kona mín sat við hliðina á mér og svo komu þessir menn. Við horfðum á hvorn annan í tíu eða fimmtán sekúndur,“ sagði Özil við The Athletic.

„Við vorum að hugsa um hvort þeir vildu taka mynd því það hafði gerst áður. Síðan sáum við að þeir voru með vopn og þá vissum við að það væri eitthvað rangt. Þeir sáu stóran bíl og Sead rétti mér eitthvað þá sáu þeir að hann var með dýrt úr.“

Eiginkona Özil var með honum í bílnum og sá þýski var ekki að hugsa um sjálfan sig á þessum tímapunkti.

„Við vorum nýlega gift og ég var hræddur um konuna mína. Ég var hræddur um Sead. Ég var ekki að hugsa um sjálfan mig. Ég var hræddur um að þeir myndu koma inn um hurðina hjá konunni minni og þeir reyndu það en ég náði að komast framhjá konu minni og læsa hurðinni.“







„Ég sá einn möguleika og það var að keyra í burtu. Ef þeir hefðu náð konunni minni þá hefði eitthvað skelfilegt hafa gerst. Þetta gerðist svo hratt að þú gast ekki hugsað almennilega.“

Özil var fljótur til. Hann settist í bílstjórasætið, sagði Kolasinac að hoppa í og brunaði í burtu.

„Ég keyrði aðeins fram og sagði Sead að hoppa inn og sem betur fer gerði hann það. Annar gaurinn reyndi að komast inn. Sead lokaði hurðinni og ég tók U-beygju. Þeir tóku múrsteina og steina og köstuðu í átt að bílnum.“

„Ég keyrði í burtu en þeir fylgdu okkur. Ég var að keyra mjög hratt en þeir héldu áfram að elta okkur. Ég reyndi að hreyfa bílinn, koma í veg fyrir þá en þeir fylgdu okkur alltaf. Konan mín var mjög hrædd,“ sagði Þjóðverjinn.

Árásarmennirnir fundust að endingu og hafa nú verið ákærðir fyrir þessa lífshættulegu árás.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×