Erlent

Tvær konur stíga út úr geimstöðinni í fyrsta sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Meir og Koch undirbúa geimbúninga sína.
Meir og Koch undirbúa geimbúninga sína. Vísir/NASA
Fyrsta geimgangan sem eingöngu konur koma að, fer fram fyrir utan Alþjóðlegu geimstöðina í dag. Þær Christina H. Koch og Jessica Meir munu stíga, eða fljóta, út úr geimstöðinni og er áætlað að geimgangan hefjist klúkkan 11:50 að íslenskum tíma og er áætlað að hún taki fimm til sex klukkustundir.

Hægt er að fylgast með undirbúningi geimgöngunnar og geimgöngunni sjálfri neðst í fréttinni.

Þetta er geimganga númer 221 frá geimstöðinni og eru 35 ár síðan kona fór í fyrstu geimgönguna. Þetta er þó í fyrsta sinn sem tvær konur fara í geimgöngu. Um er að ræða fyrstu geimgöngu Meir og verður hún þar með fimmtánda kona heimsins til að gera slíkt. Þetta er fjórða geimganga Koch.

Markmið geimgöngunnar er að skipta út bilaðri rafhlöðu.

Upprunalega stóð til að framkvæma sambærilega geimgöngu í mars en geimfararnir þurftu að hætta við hana vegna vandamála með stærð geimbúninga um borð í geimstöðinni. Þá þurfti geimfarinn Anne McClain að hætta við geimgöngu sína og í hennar stað fór Nick Hague með Koch.

Lesendur geta greint hvor geimfarinn er hvor þar sem Koch er í geimbúningi með rauðum strípum. Útsending úr myndavél í hjálmi hennar ber númerið 18 og myndavél Meir ber númerið 11.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.