Innlent

Strandaglópur á Keflavíkurflugvelli: „Maður verður að taka því sem kemur“

Kjartan Kjartansson skrifar
Fjöldi farþegar situr enn fastur í flugvélum við Keflavíkurflugvöll vegna veðurs og er búist við því að það taki fram eftir að kvöldi að tæma þær. Samkvæmt upplýsingum Isavia bíða farþegar í sex flugvélum enn eftir að komast frá borði.

Icelandair aflýsti öllum flugferðum sínum síðdegis vegna veðurs en mikið hvassviðri er nú á suðvesturlandi. Ekki er búist við því að veðrið gangi niður fyrr en með morgundeginum. Á vefsíðu Keflavíkurflugvallar kemur fram að öllum flugferðum sem áætlaðar voru síðdegis og í kvöld hefur verið aflýst. Komum hefur einnig verið aflýst eða seinkað en Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að tvær vélar Wizz Air hafi lent á Egilsstöðum.

Veðurofsinn þýðir einnig að ekki hefur verið hægt að nota landgöngubrýr til að afferma flugvélar við flugstöðina. Ekki er hægt að nota brýrnar þegar vindhraði fer yfir 26 metra á sekúndu. Því er aðeins hægt að afferma tvær vélar í einu. Fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 að það gæti tekið fram á kvöld að tæma vélarnar.

Guðjón frá Isavia segir við Vísi að miðað við veður og veðurspá verð ekki hægt að nota landgöngubrýr fyrr en í fyrramálið. Það sé flugfélaga og samstarfsaðila þeirra að ákveða hvort stigabílar séu notaðir til að ferma og afferma vélar. Þeir séu nú notaðir til að afferma vélar við flugvöllinn.

Þeir farþegar sem fréttamaður Stöðvar 2 ræddi við á flugvellinum voru þó tiltölulega rólegir. Íslenskur farþegi sem hafði beðið í tvær klukkustundir í vél úti á flugbraut og svo klukkutíma eftir farangri sem ekki skilaði sér sagði að allir hafi sýnt aðstæðum skilning.

„Það er brjálað veður, við ráðum ekki við það,“ sagði hann.

Bandarísk ferðakona sem var á leið heim til Boston sagðist við það að ljúka yndislegu fríi á Íslandi.

„Þetta er ekki svo slæmt. Það er það sem það er. Maður verður bara að taka því sem að höndum ber á svona ferðalögum,“ sagði hún.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.