Enski boltinn

Solskjær: Verðum að vinna í hugarfarinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ole Gunnar Solskjær þarf að finna lausnir
Ole Gunnar Solskjær þarf að finna lausnir vísir/getty
Ole Gunnar Solskjær segist þurfa að vinna í hugarfari leikmanna Manchester United eftir tapið fyrir Newcastle í ensku úrvalsdeildinni í dag.

„Úrslitin eru svekkjandi, við byrjuðum leikinn mjög illa. Þeir lögðu hart að sér en náðu ekki að róa leikinn niður og töpuðum boltanum of oft. Við stjórnuðum seinni hálfleiknum en náðum ekki að skapa okkur nógu mörg færi,“ sagði Solskjær eftir leikinn.

Newcastle vann 1-0 en sigurmarkið gerði hinn nítján ára Matthew Longstaff. Hann var að spila sinn fyrsta úrvalsdeildarleik.

United er nú án sigurs í síðustu 11 útileikjum sínum og situr í 12. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

„Við verðum að vinna í hugarfarinu því strákarnir eru mjög vonsviknir og með lítið sjálfstraust.“

„Við erum að ganga í gegnum mjög erfiða tíma, en þetta er ekki svo frábrugðið síðasta tímabili. Þá var ég vonsvikinn með viðhorfið en það er á réttum stað núna.“

„En þegar það eru sex byrjunarliðsmenn frá fyrsta deildarleiknum á meiðslalistanum þá hefur það áhrif á frammistöðuna.“

Næsti leikur verður erfitt próf fyrir Solskjær, United fær erkifjendur sína í Liverpool í heimsókn á Old Trafford. Liverpool hefur ekki tapað stigi í deildinni til þessa.

„Þetta er fullkominn leikur fyrir okkur. Landsleikjahléið kemur líka á fullkomnum tíma því strákarnir þurfa aðeins að lofta til í hausnum á sér.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×