Enski boltinn

Spilatími Pulisic hluti af ströngu ákvörðunarferli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Christian Pulisic spilaði tíu mínútur í dag
Christian Pulisic spilaði tíu mínútur í dag vísir/getty
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, segir það hluta af ströngu ákvörðunarferli hversu lítið Christian Pulisic fái að spila fyrir félagið.

Bandaríkjamaðurinn kom inn á í tíu mínútur í sigri Chelsea á Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag en hann hefur ekkert komið við sögu í fjórum af síðustu sex leikjum Chelsea.

„Stundum verð ég að taka erfiðar ákvarðanir og segja eitthvað sem ég tel að hjálpi leikmönnunum, en er kannski ekki skemmtilegt að heyra, því ég vil fá það besta út úr þeim öllum,“ sagði Lampard.

„Christian Pulisic er með verðmiða á sér. Ross Barkley er landsliðsmaður. Mason Mount er landsliðsmaður. Callum Hudson-Odoi er nýbúinn að skrifa undir nýjan samning.“

„Þú verður að vera hreinskilinn og leikmennirnir verða að bregðast við.“

Pulisic kom til Chelsea í sumar, en hann skrifaði undir samning hjá félaginu í janúar. Hann kláraði hins vegar síðasta tímabil á láni hjá Borussia Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×