Erlent

Litlu sænsku prinsarnir og prinsessurnar ekki lengur á ríkisspenanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Karl Filipps prins og Soffía eiginkona hans með sonunum Alexander og Gabríel.
Karl Filipps prins og Soffía eiginkona hans með sonunum Alexander og Gabríel.

Karl Gústaf Svíakonungur hefur ákveðið að gera breytingar á lífi afabarna sinna. Markmiðið mun vera að tryggja börnunum eðlilegra líf en jafnframt er um sparnaðaraðgerð að ræða. Breytingin hefur verið til umræðu í lengri tíma en er nú orðin að veruleika. Frá þessu er greint í sænskum miðlum.



Um er að ræða tvö börn Karls Filippus prins og þrjú börn Magðdalenu prinsessu. Fredrik Wersäll ríkismarskálkur Svíþjóðar tilkynnti um breytinguna á blaðamannafundi í morgun.



Til þessa hafa prinsarnir og prinsessurnar ungu komið fram við hin og þessi tilefni en nú verður hugsað um þau sem almenna borgara með tilheyrandi einkalífi. Líf þeirra verði ekki takmarkað að mörgu leyti eins og sé tilfellið þegar um meðlimi konungsfjölskyldunnar sé að ræða.



Á sama tíma greiðir ríkið ekki lengur fyrir uppihald og annan kostnað sem snýr að börnunum.



Breytingin nær til Alexanders prins, Gabríels prins, Lenóru prinessu, Nicolas prins og Adríönu prinsessu. Þau eru á aldrinum eins til fimm ára en mikið barnalán hefur verið í sænsku konungsfjölskyldunni. Þau viðhalda titlum sínum og eru áfram hluti af konungsfjölskyldunni. 



Kostnaður við konungsfjölskylduna nam 1,8 milljarði króna í fyrra og óx um 25 milljónir á milli ára. Ekki er reiknað með því að kostnaðurinn minnki nokkuð þrátt fyrir breytingarnar.



Karl Filippus og Soffía eiginkona hans vonast til þess að drengirnir þeirra eigi eftir breytingarnar eðlilegra líf fyrir höndum eins og sjá má á færslu þeirra á Instagram hér að neðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×