Erlent

Ákvörðun og ummælum Trumps forseta mótmælt

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Tyrkir og Kúrdar mótmæltu Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í dag eftir ákvörðun hans um að flytja herlið burt frá norðurhluta Sýrlands og rýma þannig fyrir innrás Tyrklandshers á yfirráðasvæði Kúrda.

Með þessu er Trump sagður svíkja Kúrda, eina mikilvægustu bandamenn Bandaríkjanna í baráttunni við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við íslamskt ríki. Forsetinn sagði í gær að Bandaríkin hefðu verið of lengi í Sýrlandi. Ef Tyrkir gerðu eitthvað sem honum þóknaðist ekki myndi Trump gjöreyðileggja tyrkneska hagkerfið.

Mótmæli

Þeim ummælum var einmitt mótmælt í tyrknesku höfuðborginni Ankara í dag. „Við höfum safnast saman til að mótmæla því sem Bandaríkjaforseti tísti í gær, að hann myndi eyðileggja Tyrkland,“ sagði Aykur Dis, einn mótmælanda, í dag.

Kúrdar í Sýrlandi eru ekki síður ósáttir, en þó af annarri ástæðu. Þeir líta svo á að Trump hafi stungið þá í bakið og óttast blóðbað. Særðir hermenn mótmæltu við skrifstofur Sameinuðu þjóðanna í Qamishli í Sýrlandi.

„Við, íbúar norðausturhluta Sýrlands, köllum eftir því að alþjóðasamfélagið, mannúðarsamtök og Sameinuðu þjóðirnar skerist í leikinn,“ sagði Muthanna al-Aqli, hermaður í sveitum Kúrda.

Vígbúnaður og umræður

Mikill vígbúnaður er nú á landamærum Sýrlands og Tyrklands. Þar hefur töluverð hernaðaruppbygging átt sér stað undanfarnar vikur. Hersveitir hliðhollar Tyrkjum í Sýrlandi hafa svo verið við stífar æfingar frá því tilkynnt var um að aðgerðin væri yfirvofandi.

Ákvörðun Trumps um að draga hermenn frá Sýrlandi verður til umræðu á næsta ríkisstjórnarfundi, síðar í vikunni. Það sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í svari við fyrirspurn Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar, á Alþingi í dag.


Tengdar fréttir

Íslenskur Kúrdi segir Trump vera svikara

Flutningar bandarískra hermanna frá norðurhluta Sýrlands hófust í dag. Tyrkir áforma nú innrás á svæðið til þess að berjast við hersveitir Kúrda sem þar hafa yfirráð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.