Innlent

Vill að ríkisstjórnin fordæmi innrás Tyrkja í Sýrland

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, kallaði eftir því á Alþingi í dag að íslenska ríkisstjórnin fordæmi innrás Tyrkja á Kúrdahéruð í Sýrlandi. „Þessar bandalagsþjóðir okkar í NATO eru að koma í veg fyrir aðgang hryðjuverkamanna að suðurhluta landamæra Tyrklands og í framhaldinu heldur Tyrklands forseti fram þeirri firru að með innrásinni munu Tyrkir varðveita landfræðilegt fullveldi Sýrlands og frelsa íbúa landsins frá hryðjuverkamönnum,“ sagði Þórhildur Sunna undir liðnum um störf þingsins í dag.

Sjá einnig: Kúrdar segja Tyrki ráðast gegn óbreyttum borgurum

Sagði hún innrásina vera glæp gegn friði sem gangi gegn grundvallarlögum þjóðaréttar. „Ég kalla á það að ríkisstjórnin, sér í lagi hæstvirtur forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir og hæstvirtur utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson, lýsi því yfir hið fyrsta,“ sagði Þórhildur Sunna. 

Vísaði hún í því sambandi til þess að í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og í dómum Alþjóðadómstólsins í Haag sé það túlkað sem glæpur ef að fullvalda ríki ræðst inn í annað fullvalda ríki án aðkomu eða samþykkis öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nema ef um sjálfsvörn sé að ræða. „Sú vörn á augljóslega ekki við í þessu tilfelli. Ég kalla eftir því að hæstvirtur ráðherra kalli þessa innrás réttu nafni. Það er að segja glæp gegn friði, ólögmæta innrás,“ sagði Þórhildur Sunna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.