Enski boltinn

Klopp: Chelsea minnir mig á Dortmund

Anton Ingi Leifsson skrifar
Klopp var léttur á blaðamannafundinum í  morgun.
Klopp var léttur á blaðamannafundinum í morgun. vísir/getty
Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að ungt og skemmtilegt lið Frank Lampard hjá Chelsea minni hann á gömlu lærisveina sína í Dortmund.

Klopp bjó til ungt og frambærilegt lið hjá Dortmund en í liðinu voru meðal annars Mario Götze, Nuri Sahin, Shinji Kagawa og Robert Lewandowski.

Liðið varð meistari í Þýskalandi tvö ár í röð auk þess að vinna þýska bikarinn árið 2012 en Frank Lampard hefur lagt traust sitt á ungu leikmennina hjá Chelsea eftir að hann tók við liðinu í sumar.

Lampard hefur gefið leikmönnum eins og Tammy Abraham, Mason Mount og Fikayo Tomori tækifæri á leiktíðinni en Chelsea og Liverpool mætast í stórleik helgarinnar í enska boltanum.

„Þetta er mjög spennandi lið. Þetta minnir mig á liðið mitt hjá Dortmund þegar þeir voru ungir, mögulega yngri en hjá Chelesa,“ sagði Klopp á blaðamannafundi fyrir leik helgarinnar.







„Fólk var alltaf að tala um hversu ungir þeir voru en þeir spiluðu bara því þeir voru góðir. Þeir spiluðu ekki af því þeir voru ungir.“

„Þeir keyptu Pulisic í sumar á 50-60 milljónir punda og allir í kringum hann eru með svipaðan verðmiða á sér. Tammy Abraham er nú 60 milljóna punda virði, Mason Mount kostar 60 milljónir ef ekki meira og Hudson-Odoi var það fyrir.“

„Jorginho er ekki ungur en hann hefur ekki verið lengi í deildinni og Kante lítur út fyrir að geta spilað næstu tuttugu árin. Ef það væri eitt lið sem félagaskiptabannið myndi ekki hafa áhrif á, þá er það Chelsea,“ sagði Klopp.

Leikur Chelsea og Liverpool hefst klukkan 15.30 á sunnudaginn en leikið er á Stamford Bridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×