Enski boltinn

De Gea segir að leikmenn Man. United muni leggja líf sitt að veði fyrir Solskjær

Anton Ingi Leifsson skrifar
De Gea og Solskjær á góðri stundu.
De Gea og Solskjær á góðri stundu. vísir/getty
David De Gea, markvörður Manchester United, segir að leikmenn félagsins standi á bakvið stjórann Ole Gunnar Solskjær og muni berjast fyrir hann „til dauða“.

Solskjær byrjaði vel sem bráðabirgðarstjóri félagsins en eftir að hafa fengið langtímasamning í marsmánuði hefur gengið ekki verið upp á marga fiska.

Slakt gengi undir lok síðustu leiktíðar gerði það að verkum að United missti af Meistaradeildarsæti og í ár hefur liðið bara fengið átta stig af átján mögulegum.

„Solskjær er hluti af fjölskyldunni. Hann var hér í mörg ár sem leikmaður, hann þekkir félagið og það sem er mikilvægast er að liðið stendur við bakið á honum. Við munum berjast til dauða fyrir hann,“ sagði De Gea.







„Það er lykillinn. Hann er góður stjóri og við munum vera með honum allt til loka. Þetta er sérstakt félag og það stærsta á Englandi.“

De Gea skrifaði á dögunum undir nýjan samning við félagið og er nú samningsbundinn rauðu djöflunum til ársins 2023.

„Ég er ánægður. Ég hef verið hér lengi og er mjög ánægður. Þetta er frábært félag með sérstaka stuðningsmenn.“

„Við höfum átt erfið ár en það er ástæðan fyrir því að ég ætla að vera hér og reyna að hjálpa. Ég vonast eftir því að við getum afrekað eitthvað stórt á næstu árum,“ sagði Spánverjinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×