Erlent

Óttast árásir Talíbana á kjörstaði

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Forsetakosningar fara fram í Afganistan á morgun. Ashraf Ghani gefur kost á sér til endurkjörs. Kjósendur eru uggandi vegna árása Talíbana á kosningafundi og kjörstaði og óttast fleiri árásir á kjördag.

Blóðug barátta

Kosningabaráttan hefur verið þyrnum stráð enda hafa Talíbanar lýst því yfir að kosningarnar séu blekkingarleikur leppstjórnar Bandaríkjamanna. Hreyfingin, sem Bandaríkin steypti af stóli árið 2001, hefur því varað Afgana við því að taka þátt í kosningunum. Hvort sem sú þátttaka felst í því að kjósa, vinna við kosningarnar eða mæta á baráttufundi frambjóðenda.

Hingað til hafa Talíbanar staðið við hótanir sínar, líkt og þeir hafa gert í kringum fyrri kosningar í landinu. Fyrir tíu dögum réðist hreyfingin til að mynda á baráttufund Ashrafs Ghani forseta, myrti 26 og særði fjörutíu.

Þess vegna reynir ríkisstjórnin nú sitt besta til þess að tryggja öryggi á þeim 4.942 kjörstöðum sem opnir verða á morgun. 

Massoud Andarabi innanríkisráðherra sagði í dag að undirbúningur öryggismála hafi farið af stað fyrir átta mánuðum. Í fyrsta skipti leiði herinn undirbúninginn. 

Á þeim kjörstöðum sem verða opnir verður þremur öryggishliðum komið upp. Fyrstu tveggja gætir lögregla en ysta hliðið verður í umsjón afganska hersins. Andarabi tók fram að rúmlega níu af hverjum tíu kjörstöðum verði opnir en ekki hefur tekist að tryggja öryggi á 431 kjörstað.

 

Ghani líklegur

Sigurstranglegustu forsetaframbjóðendurnir eru Ghani forseti og Abdullah Abdullah, sem fékk næstflest atkvæði í kosningunum 2014. 

Ef enginn fær meirihluta atkvæða verður kosið á ný á milli tveggja efstu frambjóðendanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×