Erlent

Rússar gefa lítið fyrir fréttir um njósnara í Kreml

Kjartan Kjartansson skrifar
Vladímír Pútín Rússlandsforseti (f.m.) með Dmitrí Peskov, talsmanni Kremlar (t.v.).
Vladímír Pútín Rússlandsforseti (f.m.) með Dmitrí Peskov, talsmanni Kremlar (t.v.). Vísir/EPA

Talsmenn stjórnvalda í Kreml segja fréttir bandarískra fjölmiðla um að leyniþjónustan CIA hafi haft njósnara í rússnesku ríkisstjórninni séu „skáldskapur“. Þeir segja að fyrrverandi embættismaður í Kreml hafi verið rekinn og að hann hafi ekki verið hátt settur.

Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því að CIA hafi forðað mikilvægum njósnara frá Rússlandi árið 2017. Sá hafi verið háttsettur embættismaður með aðgang að Pútín forseta og hafi upplýst um herferð rússneska forsetans til að hafa áhrif á forsetakosningarnar í Bandaríkjunum árið 2016.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Dmitrí Peskov, talsmanni Kremlarstjórnar, að meinti njósnarinn, sem rússneskir fjölmiðlar hafa nafngreint sem Oleg Smolenkov, hafi ekki verið hátt settur og að hann hafi verið rekinn úr starfi. Talsmaður viti ekki hvort að Smolenkov hafi verið njósnari.

„Þetta er meira í flokki reifara, glæpasagna,“ segir Peskov.

Reuters-fréttastofan segir enn fremur að rússneskir embættismenn segi að meinti njósnarinn hafi ekki haft aðgang að Pútín forseta.

Í rússneskum fjölmiðlum hefur komið fram að Smolenkov hafi farið í frí með konu sinni og þremur börnum til Svartfjallalands í júní árið 2017 og horfið. Maður með sama nafni hafi keypt hús í Virginíuríki í Bandaríkjunum skömmu síðar ásamt konu sem heitir sama nafni og kona Smolenkov.

Býr undir eigin nafni í Virginíu

New York Times og CNN greindu frá aðgerðum CIA til að forða njósnaranum sem fjölmiðlarnir sögðu hafa unnið fyrir Bandaríkin í um áratug. CNN hafði eftir sínum heimildum að ákvörðunin hefði meðal annars verið tekin af ótta við að Trump forseti eða aðrir úr ríkisstjórn hans gætu ljóstrað upp um njósnarann. Forsetinn hafði þá nýlega deilt leynilegum njósnaupplýsingum með utanríkisráðherra og sendiherra Rússlands í Hvíta húsinu.

Heimildir New York Times herma aftur á móti að það hafi verið áhugi bandarískra fjölmiðla á rússneska njósnaranum sem hafi orðið leyniþjónustunni tilefni til að reyna að koma honum í skjól vestanhafs.

Óttast sé um líf njósnarans, ekki síst í ljósi þess að rússnesk stjórnvöld reyndu að ráða fyrrverandi njósnara af dögum á Englandi í fyrra.

BBC vitnar í fréttir bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC sem fór að húsinu sem Smolenkov á að hafa keypt í Virginíu. Þar segir hún að hann búi undir eigin nafni, að því er virðist undir eftirliti bandarískra yfirvalda.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.