Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA 1-1 Grindavík | Grindvíkingar björguðu stigi og sætinu tímabundið á Skaganum

Axel Örn Sæmundsson skrifar
vísir/bára
Grindavík sótti heim ÍA á Skagann í 20. umferð Pepsí Max deildar karla í dag. Fyrir leik var Grindavík í erfiðri stöðu, 7 stigum frá öruggu sæti í deildinni og 3 leikir eftir.Staðan skánaði ekki mikið í dag en Grindavík náði einungis í 1 stig eftir afar bragðdaufan leik. ÍA skoraði í fyrri hálfleik beint úr aukaspyrnu en í seinni hálfleik tók Grindavík völdin.Skagamenn slökuðu vel á í seinni hálfleik og héldu flestir að Grindavík hefði jafnað þegar Stefan Alexander Ljubicic kom boltanum í netið þegar klukkutími var liðinn af leiknum en á endanum var hann dæmdur rangstæður.Josip Zeba náði þó að bjarga stigi fyrir gestina í dag þegar hann skoraði jöfnunarmarkið á 86. mínútu og var það verðskuldað. Gestirnir náðu ekki að skora sigurmark og því skiptast stigin milli liðanna í dag.Af hverju var jafntefli?

ÍA skoraði mark beint úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik og Grindavík hafði ekki mikinn áhuga á að sækja í þeim hálfleik. ÍA hélt bara boltanum og lítið að gerast.Í seinni hálfleik þurfti Grindavík að færa sig framar á völlinn og freista þess að ná að jafna leikinn og hugsanlega vinna en þrátt fyrir nokkrar ágætis tilraunir vildi boltinn ekki inn. Það var eiginlega alveg slökkt á ÍA í seinni hálfleik og Grindavík náði loks inn jöfnunarmarki rétt fyrir leikslok.Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá liðunum að skapa sér góð færi. Það var ótrúlega mikið af hornspyrnum í leiknum og engin af þeim skapaði neina hættu og ekki gekk mikið betur í opnum leik. Mark ÍA kom úr aukaspyrnu.Svo vantaði allan kraft í ÍA í seinni hálfleik og það hefði Grindavík átt að nýta sér mun betur en þeir voru á endanum heppnir að skora jöfnunarmark þegar lítið var eftir af leiknum.Hverjir stóðu upp úr?

Þessi leikur fer ekki í sögubækurnar fyrir skemmtanagildi en Stefán Teitur átti þó góðan leik í dag og skoraði geggjað aukaspyrnumark. Josip Zeba jafnaði fyrir Grindavík og stóð sig vel í vörninni.Lars Marcus Johansson var líka góður í vörn ÍA og kom öllum boltum burt sem komu inn í teig. Þá var Stefan Alexander Ljubicic hættulegastur hjá Grindavík og kom boltanum í netið einu sinni en það mark taldi ekki.Hvað gerist næst?

Grindavík á mjög erifða leiki eftir gegn FH og Val og þarf sigur í báðum leikjunum. ÍA er hinsvegar öruggt með sæti sitt og í miðjumoði núna. Næsti leikur þeirra er gegn HK í Kórnum.

Túfa: 1% möguleiki fyrir okkur

Srdjan Tufegdzic eða Túfa, þjálfari Grindavíkur, var ekki ánægður með uppskeruna í dag en lið hans náði einungis í 1 stig gegn ÍA í dag.

„Þetta leggst ekki vel í mig, ég held við áttum skilið sigur í dag miðað við hvernig liðið spilaði. Miðað við að vera í basli þá er þetta skrifað í skýin að fyrsta skotið á markið okkar er aukaspyrna sem Stefán setur í vinkilinn.“

Grindavík byrjaði ekki vel en átti heilt yfir fínan leik. Þeir voru mjög afgerandi í seinni hálfleik þar sem þeir uppskáru jöfnunarmarkið.

„Við fáum nóg af færum í dag, við skorum mark sem ég verð að sjá til á morgun, mér fannst dómarinn leyfa markið og svo er það dæmt af.“

„Við gáfumst aldrei upp og ég er stoltur af því hvernig liðið mitt spilaði í dag á einum erfiðasta útivellinum uppi á Skaga og sérstaklega í þeirri stöðu sem við erum í í dag.“

Túfa var mjög svekktur með niðurstöðuna og fannst þeir hafa átt meira skilið úr þessum leik.

„Klárlega, mér fannst við betra liðið, sérstaklega í seinni hálfleik. Við héldum boltanum vel og sköpuðum færi og sköpuðum hættu en það vantar hjá okkur eins og í allt sumar að skora meira en eitt mark til að vinna leiki.“

Grindavík er í mjög erfiðri stöðu en þeir þurfa að vinna báða leikina sem liðið á eftir til að eiga möguleika á að halda sér upp í deildinni. Túfa var þrátt fyrir það nokkuð brattur á því.

„Þetta er ekki búið, það er kannski 1% möguleiki fyrir okkur og við höldum áfram á meðan. Brekkan hefur verið meirihluta sumars og það er ekkert nýtt. Ég er þannig gerður að þó það sé aðeins 1% möguleiki á að við björgum okkur þá ætlum við ekkert að hætta. Það þarf engan sérfræðing til að teikna þetta upp en á meðan það er möguleiki þá ætlum við að berjast fyrir því.“ sagði Túfa að lokum.

Jói Kalli: Mættum ekki í seinni hálfleik

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, var allt annað en sáttur með spilamennskuna í dag er hans lið gerði 1-1 jafntefli við Grindavík.„Nei, við vorum fínir í fyrri hálfleiknum, spiluðum ágætlega, sköpuðum okkur færi og skorum frábært mark.“„Því miður þá mættum við ekki í seinni hálfleik. Það sem mér fannst vera gegnumgangandi hjá okkur í seinni hálfleik var að við vorum passífir. Vð vorum passífir varnarlega og passífir sóknarlega og héldum að þetta yrði bara auðveldur seinni hálfleikur, held ég.“„Við ætluðum að halda boltanum betur og vera þolinmóðir því við vorum komnir með forystu en við náðum engan veginn að halda boltanum.“Jóa Kalla fannst vanta mikið upp á varnarlega í seinni hálfleik.„Það eina sem Grindavík gerði, alveg eins og í fyrri hálfleik, þeir dældu mikið af löngum boltum fram á okkur. Við höndluðum það mjög vel í fyrri hálfleik. Við erum vel mannaðir til þess að höndla svona langa bolta en í seinni hálfleik var eitthvað allt annað upp í teningunum.“„Við gáfum þeim svolítið yfirhöndina með að vera passífir í stað þess að berjast eins og menn og gera þetta almennilega. Það endurspeglast í markinu sem Grindavík skorar.“ÍA var þrátt fyrir slakan seinni hálfleik næstum því búið að ná í 3 stig en Grindavík jafnaði seint í leiknum.„Ótrúlega svekkjandi og sérstaklega á þennan hátt, ég gat ekki betur séð en að það voru 2 Grindvíkingar sem hefðu getað skallað boltann í netið í okkar markteig og enginn nálægt þeim.“Jói Kalli sagði að markmiði liðsins fyrir sumarið væri ekki náð en að þeir ættu góðan möguleika á því ennþá.„Við erum ekki búnir að ná þeim stigafjölda sem við settum okkur sem markmið fyrir tímabilið, þrjú stig hefðu fært okkur töluvert nær því. Við getum alveg náð þeim fjölda og það er bara svo svekkjandi að eiga ágætis fyrri hálfleik og mæta svo ekki eins og við gerum inn í seinni hálfleik og vera svona svakalega passífir.“„Við viljum klára þetta mót af fullum krafti. Á heildina litið erum við í fínum málum með stigafjöldann, það er ekki það, við viljum halda áfram að bæta okkur. Ég veit að við getum gert betur, þess vegna er ég pirraður.“ sagði Jói Kalli að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.