Erlent

Þrír handteknir vegna brúarhrunsins í Genúa

Kjartan Kjartansson skrifar
Brak úr Morandi-brúnni eftir að rústir hennar voru rifnar.
Brak úr Morandi-brúnni eftir að rústir hennar voru rifnar. Vísir/EPA
Starfsmenn rekstraraðila brúar sem hrundi í borginni Genúa á Ítalíu í fyrra hafa verið hnepptir í stofufangelsi vegna rannsóknar lögreglu. Fjörutíu og þrír fórust þegar brúin hrundi en skattrannsóknaryfirvöld segjast hafa fundið vísbendingar um að öryggisskýrslur hafi verið falsaðar.

Þremenningarnir sem voru fangelsaðir eru starfsmenn Atlantia, móðurfélags Autostrade per l´Italia, rekstrarfélags Morandi-brúarinnar sem hrundi 14. ágúst í fyrra og viðhaldsfyrirtækisins SPEA Engineering, að sögn lögreglu. Hraðbraut lá um brúna sem var reist á 7. áratugnum.

Reuters-fréttastofan hefur ennfremur eftir lögreglu að sex starfsmönnum til viðbótar hafi verið bannað tímabundið að sinna störfum sínum. Leitað hafi verið á skrifstofum þeirra sem rannsóknin beinist að.

Autostrade heldur því fram að allar brýr sem rannsókn yfirvalda beinist að séu öruggar. Á sama tíma lýstu skattrannsóknaryfirvöld því yfir að þau hefðu fundið vísbendingar um að öryggisskýrslur hefðu verið falsaðar eða upplýsingum hafi verið haldið utan þeirra til þess að afvegaleiða eftirlitsmenn samgönguráðuneytisins og komast hjá frekara eftirliti.


Tengdar fréttir

Rústir Morandi brúarinnar í Genúa sprengdar

Þeir hlutar Morandi brúarinnar í Genúa, sem hrundi á síðasta ári með þeim afleiðingum að 43 létust, sem eftir stóðu voru í dag sprengdir í loft upp.

Leitinni við brúna í Genúa lokið

Leitinni að þeim sem var saknað eftir hrun Morandi brúarinnar í Genúa á Ítalíu lauk í nótt. Þrjú lík fundust í braki brúarinnar og tala látinna er nú komin upp í 43.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×