Erlent

Minnst tólf ferðamenn látnir eftir að bát hvolfdi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Leitað er að þeim 25 farþegum sem enn er saknað.
Leitað er að þeim 25 farþegum sem enn er saknað. AP
Minnst tólf ferðamenn létust þegar útsýnisbát hvolfdi í Godavari ánni á suðurhluta Indlands á sunnudag. Minnst 25 annarra er saknað segja yfirvöld. Fréttastofa AP greinir frá þessu.

Innanríkisráðherra Andra Pradesh ríkis, M. Sucharita, sagði að það hafi veið 61 einstaklingur, þar af fimmtíu farþegar og ellefu starfsmenn, um borð í bátnum þegar hann hvolfdi en þeir eru allir indverskir ríkisborgarar.

Björgunaraðgerðir standa nú yfir til að leita fólksins sem er enn saknað. Tuttugu og fjórum hefur verið bjargað en enn er 25 saknað sagði Sucharita.

Slysið varð nærri Kachuluru þorpinu í austurhluta Godavari héraðinu sem er 380 km austur af Hyderabad, höfuðborg ríkisins. Báturinn var á leið frá Singanapalli til Papikondalu, sem er vinsæll ferðamannastaður.

Sucharita sagði að búið hefði verið að stöðva aðra báta að fara út á ánna en hún hefur verið óvenju vatnsmikil. Ekki sé vitað hvernig báturinn, sem hvolfdi, hafði komist út á ána með ferðamennina.

„Tekið verður harkalega á þessu máli,“ sagði Sucharita.

Það eru ekki aðeins ferðamenn sem stóla á ána til að ferðast en íbúar á svæðinu notast ýmist við báta eða ferjur til að ferðast á milli þorpa við árbakka Godavari.

Í maí 2018 dóu þrjátíu manns þegar mjög svipaðan bát hvolfdi á ánni nærri staðnum sem bátinn hvolfdi í morgun. Þá voru fórnarlömbin íbúar á svæðinu. Nokkrum mánuðum síðar kviknaði í báti með 80 ferðamenn innanborðs en þá varð engum meint af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×