Erlent

Þröng staða fyrir Netanjahú

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Óvíst er hvort Netanjahú geti myndað stjórn.
Óvíst er hvort Netanjahú geti myndað stjórn. AP/Amir Cohen
Netanjahú gekk illa að mynda stjórn eftir kosningarnar í apríl. Yisrael Beiteinu, flokkur Avigdors Lieberman, vildi ekki starfa með stjórninni sem hafði því ekki meirihluta á þingi. Lieberman var varnarmálaráðherra í fyrri stjórn en lenti upp á kant við Netanjahú því honum þótti hann gefa flokkum heittrúaðra gyðinga innan ríkisstjórnarinnar of mikil völd á kostnað þjóðernishyggjuflokka.

Útlit er fyrir að flokkar starfandi ríkisstjórnar fái 54 sæti af 120. Það dugar ekki fyrir meirihluta. Flokkur Liebermans er hins vegar með níu sæti og er augljósasti kosturinn í stöðunni fyrir Netanjahú að reyna að fá hann aftur að borðinu. Ekki er víst að það gangi.

Og þótt kannanir geri ráð fyrir því að Blá og hvít, bandalag miðjuflokka sem Benjamín Gantz stýrir, fái álíka mörg sæti og Líkúd eru stjórnarmyndunarmöguleikar þeirra trúlega minni. Nokkur sundrung er á miðjunni og vinstri vængnum og þyrfti Gantz því á Lieberman að halda. Þriðji möguleikinn er svo sá að Líkúd og Blá og hvít starfi saman, sem þykir ólíklegt.

Netanjahú hefur hampað nánu sambandi sínu við Donald Trump Bandaríkjaforseta í kosningabaráttunni, en Bandaríkjamaðurinn hefur meðal annars viðurkennt þá afstöðu Ísraelsstjórnar að Jerúsalem teljist höfuðborg ríkisins, þvert gegn samþykktum alþjóðasamfélagsins. Þá hefur Netanjahú einnig heitið innlimun hluta Vesturbakkans.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×