Frá vettvangi slyssins. Vélin sést í forgrunni myndarinnar.Vísir
Viðbragðsaðilum á höfuðborgarsvæðinu barst nú á fjórða tímanum tilkynning um að lítil flugvél hefði brotlent á milli Móskarðshnjúka og Skálafells. Flugmaðurinn, sem var einn í vélinni, var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi, samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Ásgeir Erlendsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar segir í samtali við Vísi að þyrla gæslunnar hafi fundið manninn um klukkan korter í fjögur, þar sem hann var gangandi á toppi Skálafells. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan mannsins.
Viðbragðsaðilar á göngu komu að flugvélinni, lítilli eins hreyfils vél, þar sem enn logaði í henni. Þyrla Landhelgisgæslunnar er nú á leið með rannsóknarlögreglumenn og fulltrúa hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa á topp Skálafells.
Mikill viðbúnaður var vegna atviksins. Sjúkrabifreiðar voru meðal annars sendar á vettvang að Skálafelli.Vísir/VilhelmFyrsta tilkynning barst um slysið laust fyrir klukkan þrjú. Viðbragðsaðilar voru þá kallaðir út en auk Landhelgisgæslunnar komu björgunarsveitir, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og lögregla að aðgerðum. Þyrlan lenti með flugmanninn í Fossvogi skömmu fyrir klukkan fjögur.
Fréttin hefur verið uppfærð.
Flugmaðurinn fannst á Skálafelli.Vísir/Loftmyndir ehf.