Fótbolti

„Hann verður einn sá besti í heimi“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erling Braut Håland með boltann eftir þrennuna í gærkvöldi.
Erling Braut Håland með boltann eftir þrennuna í gærkvöldi. Getty/TF-Images
Jesse Marsch, knattspyrnustjóri Red Bull Salzburg, var að sjálfsögðu mjög ánægður með framherjann sinn Erling Braut Håland eftir 6-2 stórsigur á Genk í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Jesse Marsch var beðinn um að lýsa Erling Braut Håland í þremur orðum: „Jákvæður, orkumikill, spennandi eða kannski rafmagnaður,“ svaraði Jesse Marsch og þurfti að nota fjögur lýsingarorð enda ekki auðvelt að lýsa framtíðarstjörnu norska fótboltans.





Liðsfélags Erling Braut Håland er líka yfir sig hrifnir af stráknum sem skoraði þrennu í sínum fyrsta Meistaradeildarleik í gær. Strákurinn er aðeins nítján ára gamall en búinn að skora 17 mörk í fyrstu 9 leikjum tímabilsins þar af þrennu í tveimur síðustu leikjum.

„Hann er stórkostlegur. Með þessa hæð en samt svo lipur og ákveðinn með boltann. Það er mjög erfitt að spila á móti honum á æfingum og maður verður eiginlega bara að brjóta á honum,“ sagði Max Wöber, liðsfélagi Håland hjá Red Bull Salzburg.





„Enn einu sinni sannaði Erling það að hann mun verða einn besti framherji í heimi,“ bætti Wöber við.

Erling Braut Håland sjálfur ætlar sér stóra hluti í Meistaradeildinni strax á þessu tímabili.



„Það er allt mögulegt. Við sáum Ajax liðið á síðustu leiktíð. Það væri gaman að vera nýja Ajax en við vitum að það er fullt af góðum liðum. Þetta verður erfitt en miði er möguleiki,“ sagði Erling Braut Håland.

Red Bull Salzburg á eftir að spila við Evrópumeistara Liverpool og ítalska félagið Napoli. Napoli vann einmitt Liverpool í hinum leik riðilsins í gærkvöldi.

Erling Braut Håland fagnar.Getty/TF-Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×