Erlent

Tveir til viðbótar látnir eftir þyrluslys í Noregi

Andri Eysteinsson skrifar
Fimm farþegar létust auk flugmannsins.
Fimm farþegar létust auk flugmannsins. Helitrans
Allir sex sem voru um borð í þyrlunni sem hrapaði fyrir utan Alta í norðurhluta Noregs í gær eru látnir. Reuters greinir frá.

Fyrstu fregnir frá slysinu í gær greindu frá því að fjórir hefðu látist, einn væri slasaður og eins saknað.

Þyrluferðin var farin í tengslum við tónlistarhátíðina Höstsprell sem fram fer á svæðinu þessa helgina, fimm hinna látnu voru norskir ríkisborgarar á þrítugsaldri en flugmaður þyrlunnar var sænskur.

Rekstraraðilar þyrlunnar hjá fyrirtækinu Helitrans sögðu í yfirlýsingu á vefsíðu sinni í gær að ótímabært væri að tjá sig um aðdraganda slyssins. Norsk yfirvöld hafa þó hafið rannsókn á málinu.

Að sögn vitna sást eldur og svartur reykur stíga upp handan fjallsins þar sem þyrlan hrapaði. Í kjölfarið hafi heyrst fimm eða sex litlar sprengingar. Þyrlan er sögð hafa flogið lágflugi yfir fjallstindinn stuttu áður en slysið átti sér stað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×