Fótbolti

Lukaku sannfærði Sanchez um að koma til Inter

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Sameinaðir á ný.
Sameinaðir á ný. vísir/getty
Alexis Sanchez og Romelu Lukaku eiga það sameiginlegt að hafa ekki náð að slá í gegn á Old Trafford þar sem þeir léku saman með Manchester United.

Þeir vonast líklega báðir eftir að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga í boltanum hjá Inter Milan en þeir færðu sig báðir um set frá Man Utd til Inter Milan í sumar.

Inter er eitt af stóru liðunum í ítalska boltanum; hafa 18 sinnum orðið ítalskir meistarar en félagið hefur ekki unnið til verðlauna síðan það varð bikarmeistari vorið 2011.

Er Lukaku og Sanchez ætlað að glæða sóknarleikinn nýju lífi en Sanchez þekkir til í Serie A þar sem hann sló fyrst í gegn í Evrópuboltanum með Udinese frá 2006-2011.

„Ég er ánægður með að snúa aftur í ítalska boltann. Ég vil gera mitt besta; fyrir mig, fyrir liðið og fyrir stuðningsmenn Inter. Við getum talað um meistaratitilinn. Ég er hér til að vinna til verðlauna. Liðið hefur ekki unnið titil í átta ár en það er allt til staðar hér fyrir velgengni,“ segir Sanchez.

Sílemaðurinn segist hafa rætt við Lukaku áður en hann ákvað að ganga í raðir Inter.

„Hópurinn er bæði ungur og öflugur. Það er þjálfari sem vill vinna og framkoma Conte hafði mikil áhrif. Hann smitar sjálfstrausti í leikmannahópinn. Lukaku er ánægður að vera hér og hann sannfærði mig líka um að koma hingað,“ segir Sanchez.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×