Enski boltinn

Halda því fram að Mourinho hafi neitað að kaupa Virgil van Dijk

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk á blaðamannafundi með hollenska landsliðinu.
Virgil van Dijk á blaðamannafundi með hollenska landsliðinu. Getty/VI Images
Jose Mourinho, fyrrum knattspyrnustjóri Manchester United, væri kannski ennþá knattspyrnustjóri félagsins ef hann hefði keypt hollenska miðvörðinn Virgil van Dijk í janúar 2018. Portúgalinn sagði hins vegar nei takk og missti síðan starfið sitt tæpu ári síðar.

Liverpool keypti Virgil van Dijk í staðinn frá Southampton og sér ekki eftir því í dag. Van Dijk er nú í hópi bestu leikmanna heims á öllum verðlaunahátíðum UEFA og FIFA. Liverpool var allt annað lið með Virgil van Dijk innanborðs og vann Meistaradeildina síðasta vor.

Á sama tíma gekk lítið sem ekkert upp hjá Manchester United og Jose Mourinho var rekinn í desember. Vandræði liðsins snéru ekki síst um varnarleikinn en United bætti úr því með því að kaupa Harry Maguire í haust. Þá var hins vegar skaðinn skeður og liðið ekki lengur í Meistaradeildinni.





Blaðamenn The Independent hafa heimildir fyrir því að Jose Mourinho hafi sagt við yfirmenn sína hjá Manchester United að hann vildi ekki kaupa hollenska miðvörðinn.

Miðverðirnir sem Jose Mourinho keypti sem knattspyrnustjóri Manchester United voru þeir Eric Bailly og Victor Lindelof en á þessum tíma, í janúar 2018, sóttist Portúgalinn ekki eftir því að kaupa fleiri miðverði. Það breyttist hins vegar um sumarið.

Miguel Delaney skrifaði um þetta í The Independent og gerði mikið úr því að það á ekki að sjást hjá félagi eins og Manchester United að stjóri segi nei við háklassa miðverði í janúar en þurfi svo lífsnauðsynlega á miðverði að halda nokkrum mánuðum síðar.





Liverpool borgaði Southampton 75 milljónir punda fyrir Virgil van Dijk en einu og hálfu ári síðar keypti Manchester United Maguire frá Leicester City fyrir 85 milljónir punda og gerði hann að dýrasta varnarmanni heims.

Van Dijk var kosinn besti leikmaður síðasta tímabils hjá UEFA og þykir líklegur til að hljóta Gullknöttinn í ár sem besti knattspyrnurmaður heims árið 2019. Hann er þegar orðinn goðsögn hjá Liverpool og mikill leiðtogi innan liðsins.

Van Dijk er 27 ára gamall og er staddur með hollenska landsliðinu sem mun mæta Þýskalandi í kvöld í undankeppni EM 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×