Fótbolti

Mikael: Svekktur að byrja á bekknum og var ákveðinn að sanna mig

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joao Machado, markvörður og fyrirliði Lúxemborgar, fellir Mikael Neville Anderson.
Joao Machado, markvörður og fyrirliði Lúxemborgar, fellir Mikael Neville Anderson. vísir/bára
„Ég var ákveðinn að sanna mig. Ég byrjaði á bekknum og var pínulítið svekktur með það. Ég þurfti að sýna hvað ég get og gerði það,“ sagði Mikael Neville Anderson í samtali við Vísi eftir sigur íslenska U-21 árs landsliðsins á Lúxemborg, 3-0, í fyrsta leik sínum í undankeppni EM 2021.

Mikael var ekki í byrjunarliði Íslands en var settur inn á í hálfleik. Hann var ekki lengi að láta til sín taka og aðeins rúmri mínútu eftir að hann kom inn á fiskaði hann vítaspyrnu sem Sveinn Aron Guðjohnsen skoraði úr.

„Við vorum betri en þeir. Við vorum óheppnir í fyrri hálfleik þar sem við skoruðum ekki. Þetta kom svo eftir fyrsta markið,“ sagði Mikael sem leikur með Midtjylland í Danmörku.

„Mörkin voru mjög góð. Þrjú flott mörk og þrjú flott stig,“ bætti hann við.

Næsti leikur Íslands er gegn Armeníu á mánudaginn. Aftur verður leikið á Víkingsvelli. Mikael vill að sjálfsögðu vera í byrjunarliðinu í þeim leik.

„Ég vona það. En við sjáum bara til. Þjálfarinn ræður. Ég vona bara að við vinnum leikinn,“ sagði Mikael að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×