Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Lúxemborg 3-0 | Góð byrjun á undankeppninni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Dagur Þorsteinsson kemur Íslandi í 2-0 með frábæru marki.
Jón Dagur Þorsteinsson kemur Íslandi í 2-0 með frábæru marki. vísir/bára
Ísland vann 3-0 sigur á Lúxemborg í fyrsta leik sínum í undankeppni EM U-21 árs á Víkingsvelli í kvöld.

Sveinn Aron Guðjohnsen, Jón Dagur Þorsteinsson og Willum Þór Willumsson skoruðu mörk Íslendinga sem unnu þarna sigur í fyrsta keppnisleik sínum undir stjórn Arnars Þórs Viðarssonar.

Íslenska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og markið lá í loftinu. Joao Machado, markvörður og fyrirliði Lúxemborgar, varði vel frá Willum og Ari Leifsson skallaði í slá eftir hornspyrnu Jóns Dags.

En Lúxemborgarar stóðust pressu Íslendinga og smám saman fór mesti krafturinn úr íslensku sókninni. Spilið gekk hægt og gestirnir vörðust vel. Jónatan Ingi Jónsson fékk reyndar gott færi á 35. mínútu en Machado varði. Staðan var markalaus í hálfleik.

Mikael Neville Anderson kom inn á fyrir Jónatan í hálfleik. Rúmri mínútu eftir að seinni hálfleikurinn hófst náði Mikael í víti þegar Machado braut á honum. Sveinn Aron tók spyrnuna og skoraði af öryggi.

Á 58. mínútu vann Willum boltann, kom honum á Jón Dag á vinstri kantinum, hann fór á hægri fótinn og smurði boltann upp í samskeytin fjær. Frábært mark hjá fyrirliðanum.

Fimm mínútum síðar skoraði Willum þriðja og síðasta mark Íslands. Hann rak þá smiðshöggið á frábæra íslenska sókn.

Síðasti hálftíminn fór aðallega í skiptingar en hvort lið má setja fimm varamenn inn á í leik í undankeppninni. Eðlilega datt botninn úr leiknum við þetta.

Tveir þeirra sem komu inn á hjá Íslandi, Guðmundur Andri Tryggvason og Kolbeinn Þórðarson, áttu báðir skot í marksúlurnar í sömu sókninni undir lokin. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Ísland fagnaði öruggum sigri.



Willum skorar þriðja mark Íslands.vísir/bára
Af hverju vann Ísland?

Getumunurinn á liðunum er mikill og eftir að Íslendingar brutu ísinn var aldrei spurning hvorum megin sigurinn myndi enda.

Íslenska liðið sýndi þolinmæði og hélt haus þótt mörkin létu bíða eftir sér. Þau urðu þrjú og hefðu getað orðið fleiri því Ísland átti þrjú skot í stöng og slá í leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Mikael átti frábæra innkomu og lífgaði verulega upp á sóknarleik Íslands. Jón Dagur skoraði glæsilegt mark og Kolbeinn Finnsson leysti stöðu vinstri bakvarðar með stæl.

Willum var samt besti maður vallarins; skoraði eitt mark, lagði upp annað og var alltaf ógnandi. Rosalega vel spilandi leikmaður sem tekur langoftast rétta ákvörðun með boltann.

Hvað gekk illa?

Seinni hluti fyrri hálfleiks var ekkert sérstakur hjá íslenska liðinu. Eins og Arnar Þór sagði eftir leik leyfðu Íslendingar Lúxemborgurum að stýra hraðanum í leiknum á þeim tíma. En í seinni hálfleik setti íslenska liðið í annan gír og þá áttu gestirnir afar erfitt uppdráttar.

Hvað gerist næst?

Ísland mætir Armeníu í öðrum leik sínum í riðlinum á mánudaginn, einnig í Víkinni.

Arnar Þór á hliðarlínunni.vísir/bára
Arnar Þór: Hættum að spila þeirra leik

Arnar Þór Viðarsson, þjálfari U-21 árs landsliðsins, sagði að Íslendingar hafi spilað of hægt seinni hluta fyrri hálfleiks gegn Lúxemborg í kvöld.

„Í hálfleik töluðum við um að við þyrftum að hætta að spila þeirra leik og á þeirra hraða. Þeir voru komnir hingað til að halda núllinu og byrjuðu fljótlega að tefja,“ sagði Arnar eftir leik.

„Við byrjuðum leikinn mjög vel og fengum góð færi. En svo kom 20 mínútna kafli þar sem við duttum niður á þeirra plan. Við vildum losna úr því í seinni hálfleik og gerðum það vel. Spilið gekk hraðar og við fengum fleiri hlaup inn fyrir vörnina þeirra. Þannig sköpuðum við fyrsta markið. Þetta breyttist í seinni hálfleik. Við hættum að spila þeirra leik og byrjuðum að spila okkar leik.“

Arnar var afar sáttur með frammistöðu Íslands í seinni hálfleiknum.

„Mörkin voru glæsileg og við hefðum getað unnið stærri sigur. Það var þolinmæðisvinna að brjóta þá á bak aftur og það hefur loðað svolítið við íslensk landslið, að það hefur ekki átt við okkur að stjórna leikjum. Mér fannst við gera það mjög vel,“ sagði Arnar.

„Við fengum engin færi á okkur. Við vörðumst vel og framarlega og pressuðum þá nánast í 90 mínútur. Heilt yfir var ég mjög sáttur við þetta.“

Mikael sækir vítið sem Sveinn Aron skoraði úr.vísir/bára
Mikael: Vonast til að byrja næsta leik

„Ég var ákveðinn að sanna mig. Ég byrjaði á bekknum og var pínulítið svekktur með það. Ég þurfti að sýna hvað ég get og gerði það,“ sagði Mikael Neville Anderson eftir sigur íslenska U-21 árs landsliðsins á Lúxemborg, 3-0.

Mikael var ekki í byrjunarliði Íslands en var settur inn á í hálfleik. Hann var ekki lengi að láta til sín taka og aðeins rúmri mínútu eftir að hann kom inn á fiskaði hann vítaspyrnu.

„Við vorum betri en þeir. Við vorum óheppnir í fyrri hálfleik þar sem við skoruðum ekki. Þetta kom svo eftir fyrsta markið,“ sagði Mikael sem leikur með Midtjylland í Danmörku.

„Mörkin voru mjög góð. Þrjú flott mörk og þrjú flott stig,“ bætti hann við. Næsti leikur Íslands er gegn Armeníu á mánudaginn. Aftur verður leikið á Víkingsvelli. Mikael vill að sjálfsögðu vera í byrjunarliðinu í þeim leik.

„Ég vona það. En við sjáum bara til. Þjálfarinn ræður. Ég vona bara að við vinnum leikinn,“ sagði Mikael að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira