Innlent

Hengilshlaupið hófst í kvöld sólarhring á eftir áætlun

Eiður Þór Árnason skrifar
Ræsing fyrstu keppenda í kvöld.
Ræsing fyrstu keppenda í kvöld. Aðsend

Hengils Ultra hlaupið hófst klukkan átta í kvöld en mótinu var frestað um sólarhring vegna veðurs í morgun. Tuttugu keppendur taka þátt í hlaupinu og hlaupa hundrað kílómetra inn í nóttina og fram undir morgun og munu ljúka leik einhvern tíma eftir hádegi á morgun, sunnudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skipuleggjendum hlaupsins.

Hengill Ultra Trail er lengsta utanvegahlaup á Íslandi og er nú haldið áttunda árið í röð. Hlaupið er frá Skyrgerðinni í Hveragerði, upp Reykjadal að Ölkelduhnjúki og í kring um hann. Þá heldur hluti hóps áfram inn að Hengli og niður Sleggjubeinsskarð.

Í fyrramálið verða ræstir keppendur sem hlaupa fimmtíu kílómetra og svo verða keppendur í 25 kílómetrum ræstir klukkan 13:00. Þeir sem hlaupa tíu og fimm kílómetra verða aftur á móti ræstir klukkan 14:00 á morgun.

Í tilkynningu sem var gefin út fyrr í dag kom fram að rigning síðasta sólarhringinn hafi verið of mikil á keppnissvæðinu og því hafi verið tekin ákvörðun um að fresta hlaupinu af öryggisástæðum.

Algjör metskráning er í mótið í ár sem haldið er í Hveragerði en fjöldi keppenda nálgast nú 400 og koma þeir alls staðar af úr heiminum.

Keppendur frá átján þjóðlöndum eru skráðir til leiks en þeir koma frá Bandaríkjunum, Kanada, Nýja Sjálandi, Belgíu, Hong Kong, Pólandi, Frakklandi, Sviss, Þýskalandi, Svíþjóð, Litháen, Hollandi, Slóveníu, Finnlandi, Noregi, Rúmeníu, Slóvakíu og Íslandi.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.