Innlent

Ragna Árnadóttir komin með lyklavöldin að Alþingi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ragna tekur hér við lyklunum af Helga á Alþingi í dag.
Ragna tekur hér við lyklunum af Helga á Alþingi í dag. vísir/vilhelm
Helgi Bernódusson, fráfarandi skrifstofustjóri Alþingis, kvaddi starfsfólk þingsins í Skála Alþingis í dag. Við það tækifæri afhenti hann Rögnu Árnadóttur, sem tekur við starfi skrifstofustjóra þann 1. september, lyklana að húsakynnum Alþingis.

Helgi varð sjötugur í ágústmánuði og hefur starfað á skrifstofu Alþingis óslitið í 36 ár. Hann var ráðinn skrifstofustjóri Alþingis í janúar 2005 en var áður aðstoðarskrifstofustjóri Alþingis frá 1996.

Frá 1989 til 1996 var hann forstöðumaður þingmálasviðs og staðgengill skrifstofustjóra frá 1993. Helgi var í fullu starfi hjá Alþingi frá því hann var ráðinn deildarstjóri á skrifstofu þingsins 1983, en hann var enn fremur í hlutastarfi hjá Alþingi 1973–1978 samhliða námi.

Það var glatt á hjalla í Skála Alþingis í dag þegar Helgi var kvaddur og Ragna tók við lyklunum.vísir/vilhelm
Ragna Árnadóttir fer úr starfi aðstoðarforstjóra Landsvirkjunar til þess að taka við starfi skrifstofustjóra þingsins, fyrst kvenna. Hún er lögfræðingur að mennt með embættismannapróf í lögfræði frá Háskóla Íslands og LL.M.-gráðu frá Háskólanum í Lundi.

Hún er með fjölbreytta starfsreynslu, hefur meðal annars starfað á skrifstofu Alþingis og var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur frá 2009 til 2010.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×