Erlent

Krefjast dauðadóms yfir Al Qaeda-liðum í réttarhöldum sem hefjast 2021

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Föstudaginn 11. janúar árið 2021 verður réttað yfir fimm Al Qaeda-liðum sem er gefið að sök að hafa skipulagt árásirnar á Tvíburaturnana í New York árið 2001. Bandarískir saksóknarar fara fram á dauðadóm yfir mönnunum fimm.

Þetta kemur fram á vef New York Times en hátt í þrjú þúsund manns létust í hryðjuverkunum. W. Shane Cohen, dómari frá bandaríska flotanum, ákvað dagsetningu fyrir réttarhöldin en mál mannanna fimm verður tekið fyrir af stríðsdómstólnum Camp Justice sem hefur aðsetur á bandarísku flotastöðinni á Guantanamo á suðvesturhluta Kúbu.

Khalid Sheikh Mohammed er á meðal þeirra fimm sem réttað verður yfir í ársbyrjun 2021 en hann er talinn vera heilinn á bakvið hryðjuverkin.

Khalid Sheikh Mohammed, fyrir og eftir handtöku.mynd/AP
Mohammed hefur játað fyrir bandarískum herdómstóli að hafa skipulagt hryðjuverkin frá A til Ö en einnig að hafa skipulagt fleiri árásir á vegum hryðjuverkasamtakanna Al Qaeda eins á Big Ben og Heathrow-flugvöll í Lundúnum.

Þá sagðist hann hafa ætlað sér að ráða Bill Clinton fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og Jóhannes Pál annan, fyrrverandi páfa, af dögum.

Mennirnir voru handteknir í Pakistan ýmist árið 2002 og 2003. Greiningardeild- og leyniþjónusta Bandaríkjanna CIA hélt þeim í einangrun í leynilegu fangelsi þar sem þeir voru pyntaðir við yfirheyrslur. Þeir voru síðan fluttir í alræmdu fangabúðirnar við Guantanamo flóa á Kúbu árið 2006.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×