Innlent

Fleygðu kaffibolla og kókflösku milli bíla

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það sauð upp úr á Reykjanesbraut í gær.
Það sauð upp úr á Reykjanesbraut í gær. Vísir/Vilhelm
Tveimur ökumönnum lenti saman á Reykjanesbraut síðdegis í gær, ef marka má dagbók lögreglu. Annar þeirra er sagður hafa snöggreiðst þegar hann sá hvernig hinn hagaði sér í umferðinni.

Mennirnir eiga að hafa átt í stuttum samskiptum hvor við annan á rauðu ljósi, sem voru þó ekki til þess fallin að sefa þann arga. Í bræði sinni á ökumaðurinn að hafa kastað kaffibolla út um rúðuna og í bíl „vitleysingsins í umferðinni,“ eins og sá reiði á að hafa lýst honum.

Að hans sögn á vitleysingurinn meðal annars að hafa „ekið á strætóakrein og tekið fram úr fimm bifreiðum.“ Pirraði ökumaðurinn segist hafa furðað sig á þessu og því gefið sig á tal við ökuþórinn á rauðu ljósi til að komast að því hvað honum gengi til.

Þeim spjalltilraunum var þó tekið fálega - ökuníðingurinn á að hafa sagt að hinn afskiptasami ökumaður „væri ekki lögreglan,“ hrækt á bifreið hans og kastað gosflösku sem hafnaði inni í bílnum.

Þá fyrst fauk í forvitna ökumanninn sem á að hafa kastað flöskunni til baka, síðan gripið kaffibolla sem fór sömu leið - „og varð ákoma eftir.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×