Fótbolti

Víctor Valdés keypti nýja skó handa næstyngsta leikmanni í sögu Barcelona

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fati sýndi góða takta gegn Real Betis.
Fati sýndi góða takta gegn Real Betis. vísir/getty
Víctor Valdés, fyrrverandi markvörður Barcelona og núverandi þjálfari unglingaliðs félagsins, þurfti að kaupa nýja takkaskó handa ungstirninu Ansu Fati.

Hinn 16 ára Fati lék sinn fyrsta leik fyrir aðallið Barcelona á sunnudaginn. Hann lék þá síðustu tólf mínúturnar í 5-2 sigri á Real Betis á Nývangi.

Fati er næstyngsti leikmaður í sögu Barcelona og sá yngsti sem spilar fyrir aðalliðið í 78 ár.

Valdés þjálfar Fati í unglingaliði Barcelona. Á móti í Rússlandi á dögunum kvartaði strákurinn yfir þrálátum verk í fæti. Ekki var vitað hver uppspretta meiðslanna var fyrr en Valdés bað um að fá að skoða takkaskó Fatis.

„Ég sagði honum að sýna mér takkaskóna sína. Þeir voru illa farnir og ollu honum sársauka,“ sagði Valdés.

„Enginn fattaði að þetta gæti verið út af skónum. Ég fór svo með honum til að kaupa nýja skó.“

Fati, sem er frá Gíneu-Bissaú, fékk tækifæri í aðalliði Barcelona þar sem meiðsli herja á framherja liðsins eins og Luis Suárez og Lionel Messi. Hann sýndi góða takta gegn Betis og gæti fengið fleiri tækifæri á tímabilinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×